Valur hefur boðið í Kjartan Kára Halldórsson leikmann FH. Frá þessu greinir Kristján Óli Sigurðsson, meðlimur Þungavigtarinnar á X reikningi sínum í dag.
Hann hefur verið orðaður við Víking í vetur en nú fullyrðir Kristján Óli að Valur sé búinn að bjóða í leikmanninn. Samkvæmt heimildum Fótbolta.net hefur FH samþykkt tilboðið og gefið honum leyfi til að ræða við Val.
Fótbolti.net ræddi við Davíð Þór Viðarsson, yfirmann fótboltamála, um Kjartan Kára og tilboð Vals.
„Ég get ekki sagt mikið um þetta, það er áhugi á honum og við höfum fengið tilboð í hann frá meira en einu félagi. Við höfum ekki mikinn áhuga á því að missa hann, sem kannski gefur auga leið því hann var einn af okkar allra bestu leikmönnum í fyrra. Þannig er staðan," segir Davíð.
Liggur tilboð á borði FH sem á eftir að samþykkja eða hafna?
„Mér finnst í svona málum það ekki vera rétt gagnvart honum, mér, né því félagi sem er að bjóða í hann hver staðan sé nákvæmlega. Það hafa komið tilboð í hann, það er áhugi á honum, við viljum halda honum og þannig er staðan."
Má segja beint út að það séu Víkingur og Valur sem hafa boðið í hann?
„Það er ekkert sem ég tel mig geta neitað eða staðfest."
Getur þú sagt að það hafi borist tilboð í dag?
„Þessi áhugi hefur verið í gangi í talsverðan tíma, tímaramminn er einhverjar vikur aftur í tímann. Það hefur verið áhugi á honum aftur núna síðustu daga."
Þið viljið halda honum, en hvernig er hljóðið í honum? Vill hann vera áfram?
„Það þarf eiginlega bara að spyrja hann að því. Hann hefur verið mjög ánægður hjá okkur, fengið mjög stórt hlutverk. Við tókum hann til baka frá Haugasundi, það var skref sem bara gekk ekki upp hjá honum því miður. Við höfum gefið honum traust og hann hefur heldur betur borgað okkur til baka með mjög góðri frammistöðu. Kjartan Kári er leikmaður sem ætti ekkert að vera að spila á Íslandi mikið lengur finnst mér. Hann er leikmaður okkar í dag, en mér finnst mjög líklegt að hann fengi tækifæri erlendis í næsta eða þarnæsta glugga."
Þú værir væntanlega til í að hann væri leikmaður FH á þeim tímapunkti?
„Já, að sjálfsögðu. Ég væri náttúrulega til í að hann væri leikmaður FH þangað til hann verður 35 ára, en það er ólíklegt að það gerist út frá því hversu öflugur hann er. Ég fer ekkert í eitthvað manngreiningarálit hvort að félagið sé íslenskt eða erlent, það er bara ákveðið mat á honum og það skiptir ekki máli hvort það sé í íslenskum krónum, evrum eða hvaða gjaldmiðli sem er. Það eru allir leikmenn til sölu fyrir rétt verð."
Getur þú sagt hvort það verði tekin ákvörðun um hans framhald mjög fljótlega?
„Nei, í sjálfu sér ekki. Þetta er þannig séð alltaf lifandi, ég gæti sagt í dag að við værum ekki að fara selja hann en svo eftir þrjár vikur fæ ég verðið sem ég vil fyrir hann. Það er voðalega erfitt að segja. Það eina sem ég get sag er að hann verði áfram leikmaður okkar og við teljum hann vera á góðum stað hjá okkur. Ef að því kemur að það komi tilboð í hann sem við getum ekki sagt nei við þá verður það bara hans að taka ákvörðun um hvernig hann sér þetta," segir Davíð.
Kjartan Kári er 21 árs kantmaður sem átti mjög gott tímabil með FH í fyrra. Hann var efnilegasti leikmaður Lengjudeildarinnar 2022 þegar hann lék með Gróttu, var seldur til Haugesund í Noregi eftir tímabilið en lék sumarið 2023 á láni hjá FH frá Noregi.
FH keypti hann svo til sín og náði hann að sína hversu megnugur hann er á síðasta tímabili.
Hér má lesa það sem Heimir Guðjónsson sagði um Kjartan Kára í síðustu viku.
Valur búnir að bjóða rúmlega 20 milljónir í Kjartan Kára Halldórsson. #HeimavinnaHöfðingjans pic.twitter.com/YxDmukWh32
— Kristján Óli Sigurðsson (@kristjanoli) February 25, 2025
Athugasemdir