Serbneska stórliðið Rauða stjarnan vann óvæntan en um leið öruggan 5-1 sigur á þýska liðinu Stuttgart í 5. umferð í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld.
Rauða stjarnan hafði ekki unnið leik í keppninni fram að leiknum í kvöld og var ekki heldur útlit fyrir það eftir að Ermedin Demirovic tók forystuna fyrir Stuttgart á fimmtu mínútu.
Heimamenn létu það ekki á sig fá. Silas, sem kom einmitt til Rauðu stjörnunnar á láni frá Stuttgart í sumar, jafnaði metin á 12. mínútu og þá kom Rade Krunic Serbunum í forystu þegar rúmur hálftími var liðinn.
Marko Ivanic tvöfaldaði forystu heimamanna á 65. mínútu með skalla eftir hornspyrnu. Ivanic var aleinn á fjær og ekki í miklum vandræðum með að skila boltanum í markið.
Stuttgart þurfti að ýta liðinu framar á völlinn eftir þriðja markið og buðu um leið hættunni heim. Heimamenn nýttu það og skoruðu fjórða markið eftir skyndisókn. Nemanja Radonjic var sendur í gegn, hann tók góða fyrstu snertingu áður en hann lagði boltann snyrtilega í hægra hornið.
Radonjic rak síðan smiðshöggið á stórsigur serbneska liðsins eftir frábæra skyndisókn. Hann hótaði skoti í teignum sem skildi varnarmenn Stuttgart eftir í reyknum áður en hann setti boltann í vinstra hornið.
Glæsilegur fyrsti sigur Rauðu stjörnunnar sem er nú með 3 stig eftir fimm leiki en Stuttgart með 4 stig eftir jafnmarga leiki.
Austurríska liðið Sturm Graz náði í leiðinni í fyrsta sigur tímabilsins með því að leggja Girona að velli, 1-0.
Mika Biereth skoraði eina mark leiksins er hann hirti frákast í teignum á 59. mínútu.
Sturm Graz er komið með 3 stig, eins og Girona, þegar þrjár umferðir eru eftir.
Crvena Zvezda 5 - 1 Stuttgart
0-1 Ermedin Demirovic ('5 )
1-1 Silas ('12 )
2-1 Rade Krunic ('31 )
3-1 Mirko Ivanic ('65 )
4-1 Nemanja Radonjic ('69 )
5-1 Nemanja Radonjic ('88 )
Sturm 1 - 0 Girona
1-0 Mika Biereth ('59 )
Athugasemdir