

Róberti fannst vanta grimmdina sem hans lið sýndi þegar þær unnu nýkrýnda Íslandsmeistara í síðustu umferð
“Mér fannst þetta ekki nógu gott. Þetta var svona frekar dapurt af okkar hálfu í dag. Það vantaði svona kraft í okkur miðað við síðustu helgi. Ég veit ekki hvað veldur, kannski saddar eftir síðustu helgi en leiðinlegt að enda þetta svona,” sagði Róbert Jóhann Haraldsson, þjálfari Grindavíkur, eftir fjögurra marka tap fyrir Breiðablik í dag.
Lestu um leikinn: Breiðablik 4 - 0 Grindavík
Róbert þurfti að fylgjast með sínu liði úr stúkunni þar sem hann nældi sér í rautt spjald í síðasta leik liðsins. En hvað fannst honum vanta uppá í leiknum í dag sem liðið sýndi í frábærum sigri gegn liði Þórs/KA í síðustu umferð?
“Það vantaði svona þessa grimmd sem við vorum með síðustu helgi. Kannski vantaði okkur meiri rigningu og rok til að fá þessa grimmd.”
Hverjar eru tilfinningar þínar gagnvart þessu tímabili heilt yfir?
“Heilt yfir er þetta búið að vera rosalega lærdómsríkt, bæði fyrir mig og fyrir stelpurnar. Og svona vantaði stöðugleikann, kom núna í seinni umferðinni. Seinni umferðin hjá okkur er allt, allt önnur heldur en fyrri.”
Verður þú áfram með liðið og hvað með mannskapinn?
“Það er svona formsatriði eftir að klára varðandi mig varðandi áframhald og ég er búinn að vera að spjalla við þá leikmenn sem ég vil að verði áfram. Það er bara verið að vinna í þeim málum.”
Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.
Athugasemdir