Anderson til United? - Arsenal í viðræðum við lykilmenn - Tveir á förum frá United - 18 ára vekur athygli
   fim 11. september 2025 22:00
Ívan Guðjón Baldursson
Donnarumma: Pep er besti þjálfari heims
Mynd: Manchester City
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Ítalski landsliðsmarkvörðurinn Gianluigi Donnarumma var keyptur til Manchester City í sumar og er hann mjög stoltur af því að spila fyrir enska stórveldið eftir fjögur ár hjá Paris Saint-Germain.

Á dvöl sinni hjá PSG hefur Donnarumma fest sig í sessi sem einn af allra bestu markvörðum heims, en hann var aðalmarkvörður hjá AC Milan í sex ár áður en hann skipti yfir til PSG.

Hann býr yfir gríðarlega mikilli reynslu þar sem hann er einnig með 76 landsleiki að baki fyrir Ítalíu, en hann spilaði sinn fyrsta A-landsleik aðeins 17 ára gamall. Donnarumma er ekki nema 26 ára þrátt fyrir að búa yfir svakalegri reynslu, en hann hefur meðal annars unnið Meistaradeild Evrópu, Ligue 1, ítalska Ofurbikarinn, EM landsliða og Þjóðadeildina á mögnuðum ferli.

Donnarumma gekk til liðs við Man City á lokadegi sumargluggans og fór beint að spila landsleiki með Ítalíu. Hann er því aðeins nýkominn á æfingasvæði Man City og gaf kost á sér í viðtal.

„Sagan talar sínu máli. Sú staðreynd að Pep vildi fá mig hingað er nóg til að gera mig stoltan. Það er ólýsanleg tilfinning að vera kominn hingað. Ég held að hann sé besti þjálfari heims og ég er viss um að hann mun hjálpa mér mikið. Við getum afrekað frábæra hluti saman," sagði Donnarumma.

„Þetta er nýr kafli á ferlinum og í lífinu. Ég er ótrúlega spenntur fyrir því að spila með Manchester City í ensku úrvalsdeildinni. Þetta er rosaleg áskorun. Mig hefur alltaf dreymt að spila í þessari deild, bestu deild í heimi.

„Að mínu mati er hápunktur ferils hvers leikmanns að gera góða hluti í ensku úrvalsdeildinni. Það er mjög erfitt að ná árangri í þessari deild. Ég er spenntur að spila fyrir þetta félag sem hefur verið að reyna að kaupa mig í langan tíma. Vonandi get ég endurgoldið traustið sem mér hefur verið sýnt."


Donnarumma mun berjast við James Trafford og Stefan Ortega um byrjunarliðssæti.

„Ég er ánægður útaf því að samkeppni er jákvæð fyrir alla. Ég get ekki beðið eftir að hitta hann (James Trafford) og alla nýju liðsfélagana.

„Það er mikilvægt að við séum sterkur og samheldinn hópur með fólki sem er annt um hvort annað. Það er lykillinn að árangri. Saman getum við afrekað merkilega hluti."


   02.09.2025 09:13
Donnarumma til Man City (Staðfest)

Athugasemdir
banner