Anderson til United? - Arsenal í viðræðum við lykilmenn - Tveir á förum frá United - 18 ára vekur athygli
   fim 11. september 2025 22:30
Ívan Guðjón Baldursson
Ekki hægt að útiloka að Guéhi verði seldur í janúar
Mynd: EPA
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Enski miðvörðurinn Marc Guéhi var næstum því búinn að skipta yfir til Liverpool í sumar, en ekkert varð úr félagaskiptunum eftir að Crystal Palace mistókst að kaupa leikmann til að fylla í skarðið.

Palace virtist vera að ganga frá félagaskiptum Igor Julio frá Brighton, en varnarmaðurinn kaus að fara til West Ham í staðinn.

Guéhi er aðeins með eitt ár eftir af samningi sínum við Palace og er hann fyrirliði félagsins. Félagaskiptin mögulegu virðast ekkert hafa slegið hann út af laginu þar sem hann stóð sig mjög vel með enska landsliðinu í landsleikjahlénu, skoraði sitt fyrsta landsliðsmark og fékk hrós frá Thomas Tuchel landsliðsþjálfara.

Enskir fjölmiðlar segja að Guéhi sé hamingjusamur hjá Palace en hann ætlar ekki að skrifa undir nýjan samning við félagið. Hann getur valið hvert hann fer næsta sumar en gríðarlega mörg félög eru sögð vera áhugasöm um að semja við hann.

Guéhi er 25 ára gamall og búinn að festa sig í sessi sem mikilvægur hlekkur í hjarta varnarinnar hjá enska landsliðinu.

Búist er við að hann verði á sínum stað í byrjunarliði Palace þegar liðið tekur á móti nýliðum Sunderland í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Stjórnendur Palace búast við að halda Guéhi til næsta sumars, en ekki er hægt að útiloka að hann verði seldur í janúar ef nægilega gott tilboð berst.

Chelsea, Newcastle og Tottenham eru meðal félaga sem hafa verið orðuð við Guéhi, ásamt Barcelona, Real Madrid og FC Bayern utan landsteinanna.
Athugasemdir