Landsliðskonan Ólöf Sigríður Kristinsdóttir á enn eftir að skora í deild eða bikar í sumar.
Hún spilaði í vetur fimm leiki í Reykjavíkurmóti og Lengjubikar, og skoraði tólf mörk. Í sumar er hún búin að spila sex leiki í deild og bikar, en á enn eftir að skora.
Nik Chamberlain, þjálfari hennar hjá Þrótti, hefur þó engar áhyggjur - mörkin muni koma.
„Þetta snýst kannski um sjálfstraust," sagði Nik eftir leikinn. „Hún er búin að vera óheppin. Hún fékk skallafæri í fyrri hálfleiknum sem hefði getað farið í fjærhornið á öðrum degi. Í augnablikinu er hún ekki að fá heppnina með sér."
„Þetta mun koma hjá henni. Hún skorar kannski mark þar sem hún á skot sem fer í andlitið á sér og inn (þar sem hún hefur heppnina með sér) - eins og Chicharito í Samfélagsskildinum fyrir mörgum árum - og við það opnast flóðgáttirnar. Olla skiptir miklu máli fyrir liðið þar sem hún er að skapa fyrir aðra leikmenn í kringum sig. Þetta mun koma hjá henni," sagði þjálfarinn.
Olla, sem er fædd árið 2003, skoraði fjögur mörk í átta deildarleikjum í fyrra en hún spilaði sína fyrstu A-landsleiki í febrúar síðastliðnum.
Athugasemdir