Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 30. nóvember 2022 12:17
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Nonni um Ragga Sig: Þetta verður örugglega gott samstarf
Ragnar Sigurðsson.
Ragnar Sigurðsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Sveinsson, þjálfari Fram.
Jón Sveinsson, þjálfari Fram.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fram fagnar marki í sumar.
Fram fagnar marki í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það kom kannski einhverjum á óvart þegar greint var frá því á mánudagskvöld að Ragnar Sigurðsson væri nýr aðstoðarþjálfari Fram.

Ragnar er 36 ára og lagði skóna á hilluna í fyrra. Hann lék 97 landsleiki með Íslandi og spilaði bæði á EM og HM.

Á atvinnumannaferli sínum varð hann meðal annars danskur og sænskur meistari auk þess að spila í Rússlandi og á Englandi.

„Það er alveg rétt að Raggi hringdi í mig en ég þekki Ragga ágætlega og maður hafði hugsað til hans. Ég hafði heyrt að hann væri að byrja á því að ná sér í menntun og réttindi. Svo fékk ég símtalið," segir Jón Sveinsson, þjálfari Fram, í samtali við Fótbolta.net en hann fékk á dögunum símtal frá Ragnari sem var þá að leitast eftir því að byrja í þjálfun.

„Ég vissi að hann væri nú ekki að leita sér að liði til að spila með. Ég þekki hann vel. Hann var frábær fótboltamaður og á frábæran feril, bæði sem landsliðsmaður og hjá félagsliði. Það er ekki spurning að hann hefur margt fram að færa og það er gaman að fá svona karakter inn í hópinn. Að hrista aðeins upp í þessu."

„Fyrir mér var þetta aldrei spurning. Ég þurfti náttúrulega að fara með þetta réttan farveg. Menn voru tilbúnir að gefa honum tækifærið. Hann er fyrst og fremst að leita sér að vettangi til að byrja þjálfaraferilinn. Svo sjáum við hvernig það þróast inn í okkar strúktúr."

Þekkjast vel
Jón, eða Nonni eins og hann er alltaf kallaður, þekkir Ragnar vel eftir að hafa þjálfað hann í Fylki fyrir mörgum árum síðan. Þeir hafa haldið sambandi í gegnum árin.

„Ég þjálfaði hann hjá Fylki. Það var stutt því hann fór snemma út. Ég hef hitt hann og spjallað við hann reglulega í gegnum tíðina. Við höfum verið í ágætis sambandi. Hann þurfti að komast einhvers staðar að þar sem hann þekkir aðeins til. Hann þekkir líka Aðalstein (Aðalsteinsson, sem er einnig í þjálfarateyminu) sem þjálfaði hann sömuleiðis. Ég held að þess vegna hafi Raggi leitað til okkar."

„Teymið verður í sjálfu sér þannig lagað óbreytt. Daði Lár og Þórhallur Víkings eru með markverðina hjá okkur. Við erum komnir með styrktarþjálfun innanhúss hjá Fram og svo verður Steini í einhverju hlutverki með okkur líka. Raggi verður viðbót við það. Svo eru alls konar möguleikar; Raggi er með þennan feril og reynslu. Það getur vel verið að við nýtum hann eitthvað í að hjálpa ungum leikmönnum sem eru að stíga fyrstu skrefin í meistaraflokki, jafnvel þeim sem eru efnilegri - að sinna því að einhverju leyti."

Kemur til með að hjálpa með varnarleikinn
Ragnar var stórkostlegur varnarmaður á sínum leikmannaferli, en Fram var eitt versta varnarlið Bestu deildarinnar á síðustu leiktíð. Ragnar, sem myndaði sterkasta miðvarðapar í sögu íslenska landsliðsins, kemur til með að hjálpa með varnarleikinn.

„Það er ein æfing búin hjá honum, ein æfing og einn fundur. Hann hefur tekið 100 prósent þátt í því. Hann er kominn af stað í þetta og ég á ekki von á öðru en að það verði góð viðbót. Við vorum í vandræðum varðandi það að fá mörk á okkur og þá er bara gott að fá besta varnarmann (Íslands)sögunnar í teymið."

„Hann kemur klárlega til með að hjálpa með varnarleikinn, alveg klárlega."

„Við áttum mjög gott samtal áður en við tókum ákvörðun um að láta verða af þessu. Hann var náttúrulega mjög öflugur leikmaður og er með mikla reynslu. Fyrir mér var þetta aldrei spurning um að veita honum vettang til að prófa sig áfram sem þjálfari. Vonandi verður þetta til þess að hann fari af stað í þessu. Það er alltaf gaman þegar þessir strákar vilja sinna þessu, vilja hjálpa okkur við að styrkja og efla fótboltann."

„Við tveir munum vinna vel saman. Hann er toppdrengur og það er alltaf gaman að hitta og spjalla við hann. Þetta verður örugglega gott samstarf," segir Jón Sveinsson, þjálfari Fram.

Fram hafnaði í níunda sæti Bestu deildarinnar í sumar.

Sjá einnig:
Raggi segist hafa hringt sjálfur í Jón - „Var aldrei að loka á neitt"
Athugasemdir
banner
banner
banner