Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 30. desember 2019 15:50
Elvar Geir Magnússon
Hver er Óskar Sverrisson? - Valinn í íslenska landsliðið
Fæddur og uppalinn í Svíþjóð
Icelandair
Óskar Tor Sverrisson.
Óskar Tor Sverrisson.
Mynd: Getty Images
Athygli vekur að Óskar Tor Sverrisson, vinstri bakvörður Häcken í Svíþjóð, er í íslenska landsliðshópnum sem leikur tvo vináttuleiki í Bandaríkjunum í janúar.

Óskar er 27 ára og er fæddur og uppalinn í Svíþjóð en á íslenskan föður.

„Óskar hefur ekki verið mikið á radarnum hjá mér en Erik veit töluvert um hann. Þegar það kom upp að við gætum ekki fengið Böðvar Böðvarsson í verkefnið þá kom upp sú staða að við vildum fá inn annan vinstri bakvörð. Erik (Hamren) hefur séð töluvert af Óskari og vildi skoða hann nánar í þessu verkefni," segir Freyr Alexandersson, aðstoðarþjálfari landsliðsins.

„Hann getur bæði spilað sem vinstri bakvörður og sem miðvörður. Við vildum skoða hann sem vinstri bakvörð í þessu verkefni. Hann og Davíð Kristján (Ólafsson) verða vinstri bakverðir í þessari ferð."

Smelltu hér til að sjá hópinn.

Óskar lék sex leiki í sænsku úrvalsdeildinni á liðnu tímabili en Häcken endaði í sjötta sæti.

„Pabbi er frá Íslandi og mamma frá Svíþjóð og ég er fæddur og uppalinn í Svíþjóð. Systir mín flutti svo til Íslands fyrir 7 árum en ég fer því miður of sjaldan þangað en líkar alltaf jafn vel við landið þegar ég kem," sagði Óskar í viðtali við Fótbolta.net fyrir ári síðan.

„Auðvitað er það draumur að fá að spila fyrir hönd íslands, en fyrst og fremst er markmiðið mitt að verða lykilmaður í Häcken. Ef það tekst getur allt gerst. Hamren fylgist vel með Svíþjóð og það sem er að gerast, þannig ef ég geri nógu vel held ég að ég eigi möguleika," sagði hann í umræddu viðtali fyrir ári síðan.
Athugasemdir
banner
banner