mið 15. maí 2019 20:41
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Championship: Derby mætir Aston Villa á Wembley
Derby fær tækifæri til að komast upp í úrvalsdeildina.
Derby fær tækifæri til að komast upp í úrvalsdeildina.
Mynd: Getty Images
Jack Marriott, hetja kvöldsins.
Jack Marriott, hetja kvöldsins.
Mynd: Getty Images
Lampard hefur gert flotta hluti á sínu fyrsta tímabili sem knattspyrnustjóri.
Lampard hefur gert flotta hluti á sínu fyrsta tímabili sem knattspyrnustjóri.
Mynd: Getty Images
Leeds 2 - 4 Derby County (samanlagt 3 - 4)
1-0 Stuart Dallas ('24 )
1-1 Jack Marriott ('45 )
1-2 Mason Mount ('46 )
1-3 Harry Wilson ('58 , víti)
2-3 Stuart Dallas ('62 )
2-4 Jack Marriott ('85 )
Rautt spjald: Gaetano Berardi, Leeds ('78), Scott Malone, Derby County ('90)

Derby er komið í úrslitaleik umspilsins í Championship-deildinni eftir sigur á Leeds í mögnuðum leik í kvöld.

Fyrri leikur Leeds og Derby endaði með 1-0 sigri Leeds á heimavelli Derby. Möguleikar Derby fyrir leikinn voru því ekki frábærir og ekki bötnuðu þeir þegar Stuart Dallas skoraði fyrsta mark leiksins á 24. mínútu.

Derby jafnaði rétt fyrir leikhlé. Jack Marriott, sem var nýkominn inn á sem varamaður, skoraði og jafnaði.

Mason Mount, lánsmaðurinn efnilegi frá Chelsea, kom Derby yfir og jafnaði einvígið í upphafi seinni hálfleiks. Harry Wilson, lánsmaður frá Liverpool, skoraði á 58. mínútu og kom Derby í 3-1 með marki úr vítaspyrnu.

Derby búið að snúa einvíginu við, en staðan var ekki lengi 3-1. Stuart Dallas skoraði annað mark sitt á 62. mínútu og jafnaði einvígið aftur fyrir Leeds.

Gaetano Berardi, varnarmaður Leeds, fékk að líta sitt annað gula spjald á 78. mínútu og þar með rautt fyrir heimskulegt brot. Derby nýtti sér liðsmuninn og komst aftur yfir í einvíginu á 85. mínútu. Aftur var það varamaðurinn Jack Marriott sem skoraði.

Scott Malone, bakvörður Derby, fékk að líta sitt annað gula spjald í uppbótartímanum. Það voru því tíu gegn tíu í uppbótartímanum. Leeds náði hins vegar ekki að skora aftur og lokatölur 4-2 fyrir Derby.

Terry gegn Lampard
Derby er því komið í úrslitaleikinn á Wembley þar sem mótherjinn verður Aston Villa. Frank Lampard, stjóri Derby, mætir þar fyrrum liðsfélaga sínum John Terry, sem er aðstoðarstjóri Aston Villa.

Lærisveinar Marcelo Bielsa í Leeds eru úr leik. Leeds leit frábærlega út framan af tímabili en þegar leið á tímabilið fór liðið að hiksta.

Þess má geta að Derby spilaði síðast í ensku úrvalsdeildinni 2007/08. Er það lið jafnan talið það versta í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. Það lið náði aðeins í 11 stig.



Athugasemdir
banner
banner
banner
banner