Lyon tók á móti RB Leipzig í lokaleik riðlakeppni Meistaradeildarinnar í gærkvöldi og þurftu heimamenn helst sigur til að komast upp úr riðlinum.
Lyon lenti hins vegar 0-2 undir eftir tvö mörk úr vítaspyrnum í fyrri hálfleik en náði að jafna með tveimur mörkum eftir leikhlé. Memphis Depay gerði jöfnunarmarkið á 82. mínútu og kom Lyon þar með í útsláttarkeppnina þökk sé 3-0 sigri Benfica gegn Zenit á sama tíma.
Stuðningsmenn Lyon eru ekki sérlega sáttir með gengi liðsins, sem er í Evrópubaráttu í frönsku deildinni með 25 stig eftir 17 umferðir. Þeir létu þeir óánægju sína í ljós í gærkvöldi og komst einn þeirra inn á völlinn eftir lokaflautið með fána gegn Marcelo, brasilískum miðverði félagsins. Búið var að teikna asna á fánann með undirskriftinni „Marcelo, yfirgefðu félagið."
Memphis var fljótur að bregðast við og spretti að stuðningsmanninum til að rífa fánann úr höndum hans eins og er hægt að sjá á myndbandi hér fyrir neðan. Í kjölfarið skapaðist þvaga við endalínuna og virtust stuðningsmenn ætla að slást við leikmenn liðsins.
Memphis, sem hefur verið burðarstólpur Lyon að undanförnu, og Jean-Michel Aulas, forseti Lyon, voru bálreiðir eftir leikinn.
„Horfðu á mig! Hvað sérðu? Reiði? Ég er brjálaður, ég er reiður. Ég veit ekki hvað ég get sagt, ég veit það ekki. Þetta var ekki okkar besti leikur en við komumst upp úr riðlinum. Við spiluðum með hjartanu og komumst áfram," sagði Memphis.
„Þetta var gríðarlega mikilvægur leikur fyrir okkur en það gerir liðinu erfitt fyrir þegar stuðningsmenn eru allir búnir að setja sig upp á móti einum leikmanni. Við hverju búist þið frá liðinu? Að við þökkum stuðningsmönnum fyrir að móðga fjölskyldur okkar? Nei.
„Ég þarf að passa mig hérna því ég er mjög reiður og ég minnist mannsins sem ég var í fortíðinni. Ég vil ekki vera sá maður, ég hef þroskast og er búinn að róast niður en ég hef ekki orð sem lýsa þessu ástandi. Það er fáránlegt að spila fyrir framan fullan leikvang ef maður getur ekki fagnað úrslitunum með stuðningsmönnum að leikslokum.
„Það er rétt að ég hljóp á eftir stuðningsmanninum með fánann en það var bara til að segja honum að hætta þessu rugli og slaka á. Hver hefur tíma fyrir svona kjaftæði? Við eigum allir fjölskyldur, við erum í vinnum, hver hefur tíma til að mála asna á fána? Ef þú hefur tíma til að gera svona hluti þá verður þú að líta í spegil og hugsa um hvað þú ert að gera við líf þitt.
„Ef þú kemur á leikvanginn þá ættirðu að styðja við okkur. Við viljum að þú styðjir okkur en þú verður að styðja allt liðið, ekki bara nokkra útvalda leikmenn. Við erum lið."
Aulas var snöggur að bregðast við og fordæmdi hann hegðun stuðningsmanna.
„Memphis sannaði í dag að hann er fyrirmynd fyrir þetta félag og alvöru fyrirliði. Hann gerði það sem ég hefði gert. Þegar þú baular á leikmann eftir að hann er nýbúinn að hjálpa liðinu að komast í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar þá ættirðu að fara eitthvað annað," sagði Aulas.
„Stuðningsmaðurinn með fánann mun fá harða refsingu því við náðum honum á mynd. Ég mun hitta hann persónulega og mun einnig ræða við stuðningsmannahópa félagsins. Við í stjórninni getum ekki samþykkt svona hegðun.
„Ég hef verið í þessu starfi í 32 ár. Í dag komst Lyon í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar í tólfta sinn. Leikmenn eru sárir yfir að hafa séð þennan hrotta fara inn á völlinn til að veifa fánanum sínum og ég er það líka, en við verðum að líta á jákvæðu hliðarnar: Frakkland er með tvö lið í útsláttarkeppninni og það eru frábærar fréttir.
„Þeir sem mæta á völlinn til að baula á leikmenn munu vera settir í bann."
You can see that Memphis Depay merely tried to grab the fan’s donkey banner & did not attack him. pic.twitter.com/TXvoHNez2t
— Get French Football News (@GFFN) December 10, 2019
Début de bagarre entre certains joueurs lyonnais et des membres des Bad Gones. Memphis Depay a tente d’arracher l’étendard qui vise Marcelo @lequipe pic.twitter.com/Y2c2oOHlXk
— Bilel Ghazi (@BilelGhazi) December 10, 2019
Athugasemdir