KR lagði Breiðablik 2-0 í toppslag Pepsí Max-deildarinnar á Meistaravöllum í kvöld. Ágúst Gylfason þjálfari Breiðabliks sagði bæði lið spila illa í kvöld en KR hafi átt sigurinn skilið í döprum leik.
Lestu um leikinn: KR 2 - 0 Breiðablik
„Ég var ekkert rosalega sáttur við spilamennskuna, bæði lið áttu dapran dag fótboltalega séð fannst mér. KR-ingar skora tvö mörk, ódýr mörk sem við hefðum átt að koma í veg fyrir. Heilt yfir var þetta sanngjarn sigur KR-inga."
Aðspurður hvort Breiðablik þurfi ekki bara að gíra sig upp í að ná KR aftur sagði Ágúst að það væri rétt og nú þyrftu þeir að gíra sig upp í næsta leik sem er slagurinn um Kópavog gegn HK.
„Jú það er alveg rétt hjá þér, takk fyrir að vera svona jákvæður. Það er eltingarleikur, við þurfum að elta KR-ingana og við þurfum að gíra okkur í næsta leik sem er HK á heimavelli."
Ágúst segir að Breiðablik sé að skoða Alfons Samsted og Adam Örn Arnarson og vonast til að geta fengið annan þeirra heim í glugganum.
„Alfons er áhugaverður leikmaður og Adam, margir okkar leikmenn sem eru erlendis eru áhugaverðir og við erum að skoða það og sjáum svo hvort það beri árangur."
Athugasemdir