Sú saga hefur verið að heyrast hærra að undanförnu að sóknarmaðurinn Andri Rúnar Bjarnason sé mögulega á leið til uppeldisfélags síns, Vestra.
Andri er 32 ára sóknarmaður sem skoraði 10 mörk í 25 leikjum fyrir Eyjamenn á síðasta tímabili, en hann yfirgaf ÍBV af fjölskylduástæðum eftir síðustu leiktíð.
Andri er 32 ára sóknarmaður sem skoraði 10 mörk í 25 leikjum fyrir Eyjamenn á síðasta tímabili, en hann yfirgaf ÍBV af fjölskylduástæðum eftir síðustu leiktíð.
Hann er núna án félags og spurning hvað hann gerir. Samúel Samúelsson, formaður meistaraflokksráðs karla hjá Vestra, segir í samtali við Fótbolta.net að hann hafi auðvitað áhuga á því að fá Andra til félagsins en hann viti þó til þess að hugur leikmannsins sé að spila í Bestu deildinni.
„Mér langar ekkert heitar en að Andri Rúnar komi Vestur aftur en hann vill láta reyna á það að vera í Bestu deildinni, og ég styð hann algjörlega í því. Ef ekki, þá geri ég ráð fyrir því að við skoðum það að fá hann Vestur," segir Sammi.
„Það er ekkert leyndarmál að við myndum taka Andra Rúnar ef það stæði til boða. Ég veit samt að hann stefnir á að spila í efstu deild. Hann er eflaust að skoða sín mál þar."
Andri Rúnar hefur einnig verið orðaður við Grindavík, sem er líka í Lengjudeildinni en formaðurinn býst ekki við því að hann fari þangað og spili á móti Vestra. „Hann er Vestfirðingur í húð og hár, og við erum miklir vinir. Hann myndi aldrei spila á móti Vestra í Lengjudeildinni. Ég hugsa að hann meti okkar vinskap meira en það," sagði Sammi léttur.
Benó er grjótharður
Sammi segir að Vestri sé að skoða sín mál þegar kemur að leikmannamálum, félagið sé að leitast eftir því að styrkja leikmannahóp sinn en sé að vanda sig í því.
Á dögunum var það tilkynnt að miðjumaðurinn Benedikt Waren væri kominn í Vestra frá Breiðabliki. Hann gerði þriggja ára samning við Vestra. Benedikt er öflugur miðjumaður með einn leik að baki fyrir U17 landslið Íslands.
„Ég er gríðarlega ánægður með Benó. Ég hef verið mikill aðdáandi hans lengi. Hann kom hingað 2021 og við reyndum líka að fá hann í fyrra. Ég skildi vel að hann láta reyna á Bestu deildina. Við erum þvílíkt glaðir að fá hann Vestur, að fá strák á þessum aldri úr höfuðborginni á þriggja ára samningi er frábært."
„Við viljum reyna að gera vel. Það er ekkert hlaupið að því að fá menn Vestur en Benó er grjótharður og líst vel á þetta."
Gervigras á aðalvöllinn
Aðastaðan til fótboltaiðkunnar á Ísafirði hefur ekki verið góð síðustu ár en líklegt er að breyting verði þar á fyrir næsta ár þar sem stefnt er að því að leggja gervigras á aðalvöll Vestra þegar komandi leiktíð klárast.
„Eftir síðasta spark í haust verður ráðist í það að leggja gervigras á Olísvöllinn og það mun vera bylting fyrir okkur. Við höfum ekki getað æft fótbolta frá því tímabili lýkur þangað til vorar aftur. Við erum bara í ræktinni og svoleiðis, við getum lítið æft fótbolta. Þetta verður algjör lyftistöng fyrir okkur."
Það er verið að horfa til framtíðar hjá Vestra.
„Við fáum Fatai Gbadamosi til liðs við okkur á góðum aldri og gerum þriggja ára samning við hann. Við fáum Benó og gerum þriggja ára samning við hann. Við þurfum að huga að því að vera með leikmenn lengur en í eitt ár. Þetta mun hjálpa okkur í framtíðinni," segir Sammi en Vestri hafnaði í tíunda sæti Lengjudeildarinnar á síðustu leiktíð.
Athugasemdir