„Tilfinningarnar voru virkilega góðar, mér fannst við eiga allavega punktinn, ef ekki þrjú stig, skilið í þessum leik. Við héldum bara áfram, gáfumst ekki upp og það er mikill karakter í þessu liði. Við vorum ekki að ná að skapa nógu mikið en svo brotnaði ísinn í lokin," sagði Gísli Eyjólfsson.
Lestu um leikinn: Breiðablik 2 - 2 Víkingur R.
„Klæmint. Clutch Klæmint. Hann er búinn að vera okkur ótrúlega seigur og góður og virkilega gaman að sjá hann skora aftur." Gísli kom Blikum á bragðið með skallamarki eftir hornspyrnu.
„Hornspyrna, ég hoppa upp og svo loka ég augunum og vona það besta. Hann fór greinilega inn. Menn fengu aðeins blóð á tennurnar og höfðu aftur trú eftir að við náðum þessu fyrsta marki. Sem betur fer náði Klæmint svo að pota inn öðru."
Allt sauð svo upp úr í kjölfarið. Hvernig upplifði Gísli þetta?
„Ég veit það ekki. Ég sé þetta ekki alveg, held að Logi hafi aðeins misst hausinn og hrint Dóra aðstoðarþjálfara sem er ekki boðlegt. Svona hagaði hann sér, og það er bara þannig."
Óskað var eftir því að fá Halldór Árnason, Dóra, í viðtal, en hann vildi ekki tjá sig.
Það er mikill rígur og mikill hiti í leikjum Breiðabliks og Víkings. „Það er yfirleitt skemmtilegast þannig þegar það aðeins losnar upp úr þessu. Það eru miklar tilfinningar hjá mönnum og skiljanlega," sagði Gísli.
Viðtalið við Gísla er talsvert lengra og má sjá það í heild sinni í spilaranum efst.
Athugasemdir