Liverpool skoðar Davies - City fer á markaðinn - Man Utd vill Gutierrez - Bruno og Garnacho ekki öruggir - Fleiri orðaðir frá United
   fös 03. mars 2023 11:30
Elvar Geir Magnússon
Áhugaverðasti stjórinn í Evrópuboltanum
Will Still, stjóri Reims.
Will Still, stjóri Reims.
Mynd: Getty Images
Will Still er kallaður
Will Still er kallaður
Mynd: Getty Images
Áhugaverðasti stjórinn í Evrópufótboltanum í dag er Will Still, þrítugur Englendingur sem fæddist í Belgíu og þjálfar Reims í efstu deild Frakklands.

Við höfum áður fjallað um Still sem spilaði mikið Football Manager tölvuleikinn í æsku en er nú að upplifa drauminn. Árangurinn hefur verið þannig að um hann er talað og eftir honum tekið.

Hinir ýmsu fjölmiðlar hafa fjallað um þá óvenjulegu leið sem Will hefur farið. Hann sjálfur segist varla fá frið vegna athyglinnar og getur í dag ekki farið út í búð án þess að fólk vilji fá myndir af sér með honum. Hann er þó meðvitaður um að þetta er fylgifiskur starfsins.

Reims er ósigrað í frönsku deildinni síðan Still tók við. Hann tók upphaflega við til bráðabirgða í október eftir að Oscar Garcia var rekinn. Hann hefur nú stýrt fimmtán leikjum og þar af eru tveir jafnteflisleikir gegn stórliði Paris Saint-Germain.

Reims er að koma á óvart og er sem stendur í tíunda sæti í töflunni. Still er yngsti stjórinn í fimm stærstu deildum Evrópu.

Still er enskur en fæddist í Belgíu eftir að foreldrar hans fluttust til landsins þegar faðirinn fékk vinnu hjá Shell. Hann fékk sitt fyrsta starf í atvinnufótboltanum 2014 þegar hann var ráðinn leikgreinandi fyrir Sint-Truiden.

Still starfaði fyrir Standard Liege áður en hann var ráðinn aðstoðarstóri Lierse 2017. Félagið varð svo gjaldþrota og hann fór til Beerschot þar sem hann var aðstoðarþjálfari áður en hann tók við liðinu í byrjun árs 2021 og stýrði liðinu út tímabilið með góðum árangri. Þrátt fyrir það var hann látinn fara um sumarið.

„Stjórnin lýsti yfir ánægju með mín störf og ég fór í sumarfrí. Ég mætti til baka tveimur vikum síðar en fékk þau skilaboð að hún hefði ákveðið að ráða nýjan stjóra. Ég var beðinn um að halda áfram sem aðstoðarmaður en ég vildi ekki gera það," segir Still.

Hann varð aðstoðarmaður Garcia hjá Reims og var svo beðinn um að taka við liðinu til bráðabirgða þegar Garcia var rekinn í október.

„Oscar átti erfiða byrjun á tímabilinu og það var ákvæði í mínum samningi um að félagið gæti látið mig fara ef hann yrði rekinn. En ég var heppinn og var beðinn um að stíga inn og taka við," segir Still sem er að klára þjálfaramenntun meðfram því að stýra Reims. Félagið fær sekt fyrir hvern leik sem hann stýrir þar sem hann er ekki enn kominn með tilskilin réttindi.


Athugasemdir
banner
banner