Maguire gæti elt McTominay til Napoli - Kolo Muani horfir til Englands - Nkunku vill fara frá Chelsea
banner
   fös 03. júlí 2020 12:33
Elvar Geir Magnússon
Grótta lætur nýjan leikmann sinn í sóttkví - „Viljum sýna ábyrgð"
Kominn til landsins en spilar ekki næstu leiki
Kieran McGrath, nýr leikmaður Gróttu.
Kieran McGrath, nýr leikmaður Gróttu.
Mynd: Samsett
Grótta tapaði fyrir Fylki í vikunni.
Grótta tapaði fyrir Fylki í vikunni.
Mynd: Raggi Óla
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Skoski sóknarmaðurinn Kieran McGrath kemur til landsins í dag en hann hefur gengið í raðir Gróttu. Hann mun þó ekki spila næstu tvo leiki liðsins þar sem Grótta hefur ákveðið að láta hann í sóttkví í ljósi aðstæðna.

Stjórn Gróttu ætlar að sýna ábyrgð með því að taka enga áhættu í kórónaveirufaraldrinum en þegar er eitt lið í Pepsi Max-deild karla í sóttkví, Stjarnan, eftir að smit greindist í leikmannahópnum.

„Við ætlum að fara ákveðna leið vegna aðstæðna. Hann fer í skimun og svo í ákveðna sóttkví í nokkra daga. Hann fer svo aftur í skimun á þriðjudaginn. Hann kemur ekkert inn í hópinn fyrr en á fimmtudaginn," segir Ágúst Gylfason, þjálfari Gróttu.

Grótta spilar gegn HK á morgun og svo gegn Fjölni næsta miðvikudag en McGrath tekur ekki þátt í þeim leikjum. Hans fyrsti leikur verður líklega gegn ÍA þann 12. júlí.

„Einn af okkar þjálfurum mun sjá um hann og vera með einstaklingsæfingar fyrir hann. Sá þjálfari mun semsagt vera nánast sjálfur í sóttkví. Við erum að passa vel upp á að ekkert komi uppá."

Leikmaður kvennaliðs Breiðabliks sem kom hingað til lands frá Bandaríkjunum greindist ekki með veiruna við komuna til landsins en var svo greind jákvæð nokkrum dögum síðar.

„Það eru að koma erlendir leikmenn hingað til lands og við viljum passa algjörlega upp á það að við séum ekki að taka inn mann og svo komi í ljós eitthvað vesen. Við erum ábyrgir í þessum hlutum. Stjórnin er að gera þetta ótrúlega vel og ég held að Víðir verði allavega ánægður með okkur," segir Ágúst sem viðurkennir að þetta séu auðvitað ekki óskaaðstæður.

„Auðvitað vill maður að nýr leikmaður spili helst á morgun og það hefði að sjálfsögðu gerst í venjulegum aðstæðum. En við ætlum að bíða í viku áður en hann kemur inn í hópinn."

Kannski aðeins út fyrir stefnuna en samt í takt við hana
Kieran McGrath er nítján ára og kemur frá stórklúbbnum Celtic en þar var hann í varaliðinu. Gróttumenn vonast til að hann hjálpi liðinu fram á við en það er stigalaust eftir þrjá leiki og hefur ekki enn náð að skora mark.

„Þetta er ungur leikmaður. Hann er 2001 módel, hann er 'slúttari' sem er naskur að þefa upp færi og getur skorað. Hann er leikmaður sem er ekkert hræddur við að skjóta á markið. Þetta er 'direct' senter sem mun nýtast okkur vel. Hann kemur vonandi með hugrekki fram á við," segir Ágúst.

Talað hefur verið um að Grótta sé að víkja út frá sinni stefnu með því að sækja erlendan leikmann. Ágúst viðurkennir að það sé skiljanleg umræða en að McGrath passi að stærstu leyti inn í stefnuna.

„Hann passar vel inn varðandi uppleggið. Hann er á svipuðum aldri og aðrir í hópnum. Hann hefur verið í yngri liðum Celtic og hefur spilað UEFA leiki. Hann hefur verið að æfa eitthvað með aðalliðinu og það er mikils vænst af honum. Það er líka gott fyrir okkar stráka að fá svona leikmann inn í hópinn og hann kemur með nýja hluti."

„Stefnan er að byggja upp unga leikmenn. Þetta er ungur leikmaður og við teljum að hann passi vel. Hann kemur á sömu forsendum en það þarf náttúrulega að halda honum uppi. Hann þarf að búa einhversstaðar og hann þarf að borða. Það er í lágmarki sem við þurfum að leggja út fyrir því. En við þurfum að láta honum líða vel." segir Ágúst.

„Við ákváðum að taka þetta skref og við vorum allir sammála um að prófa þetta og sjá hvernig gengur. Þetta er kannski eitthvað aðeins útfyrir okkar stefnu en samt í takt við hana."
Athugasemdir
banner
banner
banner