lau 03. júlí 2021 20:35
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Brynjar ekki að hugsa um peningana - „Mjög þroskuð ákvörðun"
Brynjar Ingi Bjarnason.
Brynjar Ingi Bjarnason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Varnarmaðurinn Brynjar Ingi Bjarnason gekk á dögunum í raðir ítalska B-deildarliðsins Lecce.

Þessi 21 árs varnarmaður KA hefur verið frábær í Pepsi Max-deildinni í sumar og lék sína fyrstu A-landsleiki nýlega.

Þetta er spennandi skref fyrir Brynjar sem hefur bætt sig mikið á undanförnum mánuðum.

„Ég held að það hafi verið átta félög sem höfðu samband við okkur. Við fórum í viðræður við þrjú félög og tvö sem komu með samningstilboð. Það er ákvörðun Brynjars að fara til Lecce," sagði Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, í útvarpsþættinum Fótbolta.net í dag.

Malmö í Svíþjóð kom einnig með tilboð.

„Malmö bauð rosalega vel. Þetta snerist um það hvernig tilfinningin hjá honum var eftir samtal við þjálfara, hvernig hlutverk honum var ætlað hjá báðum félögum. Það er lúxus fyrir ungan leikmann að hafa úr að velja. Þarna gat hann gefið sér - eftir þetta landsliðsævintýri - tíma til að skoða hvaða hlutverki honum var ætlað og svoleiðis. Það er ekki alveg tímabært fyrir hann að fara að velta fyrir sér krónum og aurum 21 árs gamall. Hann tók að mínu viti mjög þroskaða ákvörðun."

Danski varnarmaðurinn Mikkel Qvist er kominn aftur í KA og hann mun fylla skarðið sem Brynjar skilur eftir sig.

„Ætli við öndum ekki aðeins rólega til að byrja með. Við erum búin að bregðast við með að fá Mikkel Qvist inn, til að leysa Brynjar af. Hann fór til HB/Koge eftir áramót og spilaði þar. Danska deildin er í fríi og hann var ekki í myndinni hjá Horsens... það var einföld og góð lausn," sagði Sævar en allt viðtalið við hann má hlusta á hér að neðan.
Útvarpsþátturinn - Íslenski boltinn og Ítalía á EM
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner