Kane til Barca - Arsenal og Barcelona fylgjast með ungstirni - Liverpool með augastað á Kevin - Branthwaite til Man Utd?
   mán 03. nóvember 2025 17:57
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Helgi Hrannarr hættur hjá Stjörnunni - „Fyrirkomulag sem gengur ekki upp"
Helgi Hrannarr og Hilmar Árni.
Helgi Hrannarr og Hilmar Árni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Lykilþáttur í sjálfbærni félagsins hafa verið þær 12 leikmannasölur sem ég hef tekið þátt í'
'Lykilþáttur í sjálfbærni félagsins hafa verið þær 12 leikmannasölur sem ég hef tekið þátt í'
Mynd: Aðsend
'24 af þessum 25 markmiðum hafa náðst en því miður náðist ekki titill sem er eina markmiðið sem náðist ekki. Ég er vissari núna en nokkurn tímann að því mun félagið ná næsta sumar'
'24 af þessum 25 markmiðum hafa náðst en því miður náðist ekki titill sem er eina markmiðið sem náðist ekki. Ég er vissari núna en nokkurn tímann að því mun félagið ná næsta sumar'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Helgi og Daníel Laxdal.
Helgi og Daníel Laxdal.
Mynd: Stjarnan
'Ég byggi þessi orð á því að ég veit að það býr töluvert meira í hópnum en það sem menn sýndu í sumar'
'Ég byggi þessi orð á því að ég veit að það býr töluvert meira í hópnum en það sem menn sýndu í sumar'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Evrópuleikir gefa líka samfélaginu mikið, Evrópukvöld á Samsungvellinum eru stórkostleg'
'Evrópuleikir gefa líka samfélaginu mikið, Evrópukvöld á Samsungvellinum eru stórkostleg'
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Alex Þór var fyrsta sala Stjörnunnar erlendis í mörg ár.
Alex Þór var fyrsta sala Stjörnunnar erlendis í mörg ár.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kjartan var seldur til Aberdeen í sumar.
Kjartan var seldur til Aberdeen í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það urðu nokkuð stór tíðindi í íslenskum fótbolta um helgina þegar Helgi Hrannarr Jónsson tilkynnti að hann yrði ekki lengur áfram í sínu hlutverki í kringum Stjörnuna. Helgi, sem er einn af mönnunum á bakvið tjöldin í íslenska boltanum, greindi frá tíðindunum í Facebook færslu í gær. Helgi hafði verið formaður meistaraflokksráðs karla síðan 2019 en tekin var ákvörðun að það ráð yrði lagt niður, ásamt fleiri ráðum innan fótboltadeildar Stjörnunnar. Það hefur orðið mikil breyting á fjárhag fótboltadeildarinnar í stjórnartíð Helga og er það að miklu leyti til vegna fjölda leikmanna sem hafa verið seldir erlendis.

Helgi hefur verið á bakvið leikmannamál Stjörnunnar síðustu ár, fengið inn leikmenn, samið við menn og selt tólf leikmenn erlendis - ef eitthvað gerðist hjá Stjörnunni þá kom hann að því. Það hefur verið eftirtektarvert síðustu ár hversu lítið hefur lekið út frá Stjörnunni, sem er kannski skrítið að hrósa sem fjölmiðlamaður, en það er virðingarvert hversu þétt var haldið í spilin. Eggert Aron Guðmundsson var sem dæmi seldur á háa upphæð til Elfsborg en það heyrðist ekkert af því hvert hann væri að fara fyrr en rétt áður en hann var seldur.

Þegar hann varð formaður meistaraflokksráðs var breytt um stefnu hjá meistaraflokki karla og ákveðið að byggja upp á ungum leikmönnum. Síðustu misseri hefur svo sést að hann stendur þétt við bakið á þjálfaranum, Jökli Elísabetarsyni, þjálfara sem hann hefur mikla trú á. Helgi hefur ekki viljað tjá sig mikið um leikmannamál síðustu ár þegar leitast hefur verið eftir því en svaraði spurningum fréttamanns í dag.

Af hverju ákvað Helgi að hætta?

„Það var tekin ákvörðun um að gera breytingar. Stjórn knattspyrnudeildarinnar ætlar að reka meistaraflokkana báða og barna- og unglingastarfið. Það er þvert á það sem öll önnur félög eru að gera. Strúktúrinn okkar var góður, ákveðið var að breyta honum og leggja niður ráð og þ.a.l. ýta sjálfboðaliðum til hliðar. Grasrótin í félaginu hefur oftast komið í gegnum barna- og ungingalstarfið þar sem fólk hefur komið inn í starfið í gegnum börnin sín og fylgt því eftir. Meistaraflokksráðið kom inn á sínum tíma og gjörbreytti öllum strúktúr hjá okkur, rétti skútuna af. Við komum inn á sínum tíma með breyttar áherslur, t.d. spilað á ungum leikmönnum. Ég sé ekki hverju breytingin á að skila, ég hafði áhyggjur af henni þær áhyggjur hafa komið í ljós sem er ekki gott," segir Helgi sem ítrekar að honum hafi ekki verið ýtt til hliðar

Af hverju er verið að gera þessar breytingar?

„Ef ég svara fyrir sjálfan mig þá var ég partur af þeim sem áttu að halda áfram og sitja í stjórn knattspyrnudeildar og gerði það til að byrja með. En allir þeir aðilar sem ég vann hvað nánast með voru í meistaraflokksráði sem búið er að leggja niður. Í dag er það þannig að við mínu hlutverki tekur Baldvin Sturluson, hann er framkvæmdastjóri alls félagsins í heild sinni og hann á að sjá um öll þau mál sem voru á minni könnu og voru könnu meistaraflokksráðs. Það er fyrirkomulag sem gengur ekki upp."

„Knattspyrnudeildir eru reknar með mismunandi hætti og það var ljóst að það yrði að gera betur kvennamegin og að einhverju leyti þyrfti að gera betur í barna- og unglingastarfinu. Það eru miklir möguleikar, margir vannýttir möguleikar. Við erum marga mjög öfluga þjálfara í yngri flokkum og mikinn efnivið. Það er fjársjóðurinn sem félagið á. Menn sjá bara hlutina með mismunandi hætti. Menn svo taka bara sínar ákvarðanir."

„Ég kom inn á erfiðum tíma, við breyttum hlutunum, gáfum verulega í, fjárfestum í tækni og hinu og þessu og höfum gert hlutina vel. Við erum með þessu, miðað við það sem ég sé, að minnka möguleika okkar á því að stíga næsta skref. Menn verða þá bara að lifa með þeim afleiðingum eða hvernig sem það verður."


Í pistlinum segir Helgi að hann sé vissari núna en nokkurn tímann að Stjarnan muni vinna titil á næsta ári. Af hverju er hann svo viss um það?

„Ef þú horfir yfir leikmannahóp Stjörnunnar, horfir á þakið sem þessi leikmannahópur getur náð, og síðan það sem við gerðum í sumar, þá sé ég fyrir mér að Stjarnan vinni titil á næsta ári. Fyrir mér er algjörlega ljóst að leikmannahópurinn geti gert betur en hann gerði í sumar, hópurinn er firnasterkur, umtalsvert sterkari en fólk áttar sig almennt á. Breiddin í hópnum er gríðarlega mikil og leikmannahópurinn á mjög mikið inni. Það var mikið rætt um meiðsli Patrick Pedersen, sem er stórkostlegur leikmaður, en það var lítið talað um meiðsli Emils Atlasonar eða Heiðars Ægissonar - það voru fleiri meiddir. Fyrir okkur þá höfum við þurft að spila leik eftir leik þar sem vantar 3-5 leikmenn og það hefur kannski ekki mikið komið að sök."

„Það að ná 3. sæti í deild þar sem FH stefndi hátt, Fram stefndi hátt, KR var spáð 3. sæti og Breiðablik keypti nokkra leikmenn heim úr atvinnumennsku er öflugt. En okkar hópur getur gert betur. Ég byggi þessi orð á því að ég veit að það býr töluvert meira í hópnum en það sem menn sýndu í sumar."


Þú talar um það sem þið gerðuð í sumar. Af hverju sótti Stjarnan fjóra erlenda leikmenn í glugganum?

„Það hefur alltaf verið vitað að við gætum ekki spilað á rosalega ungu liði til lengdar ef við seljum 2-3 leikmenn á hverju einasta tímabili. Akkúrat núna er smá bil, það eru margir ungir leikmenn á leiðinni en þeir eru kannski svolítið ungir akkúrat núna. Við vildum styrkja hópinn til að halda okkur samkeppnishæfum, það var ljóst að það myndu leikmenn hverfa á braut núna í haust og við fórum í þessar styrkingar til þess að vera tilbúnari fyrir næsta tímabil. Við sækjum svo Birni Snæ núna, einn allra besta leikmann deildarinnar. Það er jákvætt, og ég er stoltur af því, að þegar ég byrjaði þá höfðu bestu leikmenn landsins ekki áhuga á því að koma. Í dag er það þannig að allir bestu leikmenn landsins hafa áhuga á því að spia fyrir Stjörnuna."

„Það hefur verið sérstakt að fylgjast með því hversu miklar skoðanir menn hafa á þessu án þess að vita hvernig stefna félagsins í leikmannamálum var á þessum tíma."


Var mjög mikilvægt að ná Evrópusæti?

„Það var mjög mikilvægt upp á að fá aðra leikmenn til liðs við okkur, mikilvægt upp á að gefa leikmannahópnum þá næringu sem kemur úr því að spila Evrópuleiki. Evrópuleikir gefa líka samfélaginu mikið, Evrópukvöld á Samsungvellinum eru stórkostleg."

„Hugmyndafræðin sem við unnum eftir var sú að Evrópukeppni sem fjárhagslegt fangelsi - þ.e.a.s. að verða komast inn í Evrópukeppni - það hefur aldrei verið krafan. Að sjálfsögðu er frábært að komast í Evrópu, gerir reksturinn einfaldari og þægilegri, en sjálfbærnin í rekstrinum verður til þess að þú þarft ekki á þessum tekjum að halda og ef þær koma þá eru þær viðbót, eitthvað sem þú átt í sjóði fyrir mögru árin."


Þú talar um að þessi breyting á fótboltadeildinni hafi verið vond, en þú telur samt að liðið geti unnið titil á næsta ári. Heldur þú að þetta muni hafa slæmt áhrif til lengri tíma litið?

„Ekkert félag er byggt upp í kringum einn eða örfáa menn. Stjarnan í Garðabæ mun alveg lifa það af að einhverjir hverfi af braut. En það er hins vegar þannig að stjórnskipanin og hvernig félögum er stýrt er mjög oft það sem kemur í bakið á félögunum. Það hafa verið fréttir af Valsmönnum í alls konar vandræðum, það hafa verið vandræði í KR, í Breiðabliki voru menn ráðnir eða reknir og einhverjir vissu ekki af því en aðrir vissu af því og svo framvegis. Hvert félag er að díla við alls konar hluti byggt á þeirri stjórnskipan sem er til staðar."

„Það sem truflar mig hvað mest er stefnan. Í pistlinum sagði ég frá operation 20/25 sem var stefna sem var tímasett, þeirri stefnu lauk núna í haust. Við höfum ekki farið mikið út fyrir þá stefnu fyrr en núna í sumar. En það er algjörlega ljóst að félagið þarf að teikna upp nýja stefnu. Það getur verið stefna í því að vera í 'win-now' og sækjast eingöngu eftir bestu leikmönnunum, eða gera eitthvað annað. En menn þurfa að ákveða hvaða stefna það er. Það sem er jákvætt er að menn ætla loksins að fylgja einhverri stefnu kvennamegin. En mín skoðun er að félagar mínir í stjórn knattspyrnudeildar þurfa að ákveða hvert þeir stefna. Annars ferðu ekki neitt."


Ungir leikmenn áttu að leika lykilhlutverk
Hvað var operation 20/25? Helgi kom inn á þá aðgerðir sem farið var í þegar hann kom inn í meistaraflokksráðið 2019. Ákveðið var þá að ungir leikmenn sem fæddir voru 2004/2005 yrðu í lykilhlutverki í framtíðinni. Sett voru 25 markmiðið og öll hafa náðst nema eitt, en það er að vinna titil.

„Ég er vissari núna en nokkurn tímann að því mun félagið ná næsta sumar. Sjálfbærni í rekstri félaga hefur verið umtalsvert frá því sem þyrfti að vera og því er ánægjulegt að segja að við tókum okkur til og mældum sjálfbærni í rekstri og hún hefur aukist gríðarlega hjá okkur karla megin ekki síst vegna þeirrar stefnu sem sett var og því að treysta ungum leikmönnum fyrr en hafði sést og í miklu meira magni... ...Lykilþáttur í sjálfbærni félagsins hafa verið þær 12 leikmannasölur sem ég hef tekið þátt í og þær ásamt ráðdeild í rekstri eru í raun undirstaðan að sterku eiginfé mfl karla sem síðan hefur verið nýtt til að styrkja aðrar stoðir félagsins," skrifar Helgi.

Leikmannasölurnar
Alex Þór Hauksson - Öster
Óli Valur Ómarsson - Sirius
Daníel Freyr Kristjánsson - Midtjylland
Ísak Andri Sigurgeirsson - Norrköping
Guðmundur Baldvin Nökkvason - Mjällby
Eggert Aron Guðmundsson - Elfsborg
Gunnar Orri Olsen - FCK
Tómas Óli Kristjánsson - AGF
Helgi Fróði Ingason - Helmond Sport
Róbert Frosti Þorkelsson - GAIS
Alexander Máni Guðjónsson - Midtjylland
Kjartan Már Kjartansson - Aberdeen
Athugasemdir
banner
banner
banner