Man Utd heldur áfram að reyna við Dorgu, Neymar er til í að fórna launum til að komast til Santos og Aston Villa hefur áhuga á varnarmanni Chelsea
   fös 04. febrúar 2022 00:50
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Kallar eftir breytingum á reglum í Reykjavíkurmótinu - „Skil ekki af hverju það er ekki í lagi"
,,Ætlum ekki að vera félagið sem mætir ekki í Reykjavíkurmótið''
Af hverju er ekki í lagi að spila öllum leikmönnum í Reykjavíkurmótinu?
Af hverju er ekki í lagi að spila öllum leikmönnum í Reykjavíkurmótinu?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Finnur Tómas má ekki spila fyrr en eftir tvær vikur.
Finnur Tómas má ekki spila fyrr en eftir tvær vikur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hallur bíður eftir því að fá leikheimild.
Hallur bíður eftir því að fá leikheimild.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ræddi við framkvæmdastjóra KSÍ fyrir 6-7 árum síðan og spurði af hverju þetta væri svona
Ræddi við framkvæmdastjóra KSÍ fyrir 6-7 árum síðan og spurði af hverju þetta væri svona
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mikkel Dahl er annar Færeyinganna sem Leiknir fékk á dögunum.
Mikkel Dahl er annar Færeyinganna sem Leiknir fékk á dögunum.
Mynd: Leiknir R.
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, lét gamminn geysa í viðtali við Fótbolta.net í kvöld (fimmtudagskvöld). Hann ræddi um grasið í Egilshöllinni og þá kom hann inn á fyrirkomulag og reglur Reykjavíkurmótsins.

Sjá einnig:
„Hrós til þeirra sem hafa hlustað á okkur sem hafa kvartað yfir þessu"

Rúnar kom inn á það í kjölfarið á því að hann var spurður út í leikmenn sem ekki máttu spila með liðinu þar sem þeir eru ekki komnir með leikheimild. Félagaskiptareglur á Íslandi eru þannig að leikmenn sem skipta um lið milli leiktíða fá ekki leikheimild fyrr en 17. febrúar.

Leikmenn sem skipta á milli félaga innanlands mega spila í öllum vetrarmótum en leikmenn sem koma erlendis frá mega ekki spila fyrr en þeir fá leikheimildina. Í Reykjavíkurmótinu og Lengjubikarnum mega leikmenn sem skipta frá félagi erlendis frá þann veturinn ekki spila fyrr en eftir að hafa fengið leikheimildina en þeir mega spila í Fótbolta.net mótinu.

Finnur Tómas Pálmason kom aftur í KR frá Norrköping í síðasta mánuði og þá krækti KR í fyrirliða færeyska landsliðsins, Hall Hansson, frá Danmörku í desember. Við hverju búast KR-ingar af þeim tveimur?

Finnur einn sá besti á Íslandi
„Við þekkjum Finn ofboðslega vel, hann er frábær miðvörður og að mínu mati einn sá besti á Íslandi, manni finnst það oft með sína leikmenn. Hann veit hvað það er að vinna fótboltaleiki og titla og veit hvað ég vil fá frá honum. Nú kemur hann bara í undirbúningstímabilið frá byrjun sem er mjög gott," sagði Rúnar. Finnur var seldur til Norrköping fyrir rúmu ári síðan en kom til baka á láni í upphafi síðasta tímabils.

Eitt að spila í Danmörku og annað að spila á Íslandi
„Við þekkjum minna til Halls en hann er búinn að vera ofboðslega sterkur inn í klefa eftir að hann kom, á æfingum og hefur sýnt okkur mikil gæði. Svo er spurning hvort þau henti inn í okkar fótbolta, íslenska fótboltann. Það er eitt að spila í Danmörku og annað að spila á Íslandi. Það er alltaf öðruvísi að skipta um umhverfi en þeir sem hafa verið í Danmörku hafa oft aðlagast ágætlega hér og hann virðist mjög ánægður og sáttur."

„Hann er búinn að sjá síðustu þrjá leiki hjá okkur, sér hvað við erum að reyna og það verður bara ánægjulegt að fá hann inn á völlinn og í KR-búninginn þegar hann verður löglegur."


Rætt hefur verið um að Stjarnan hafi verið í viðræðum við Hall áður en KR, með Kjartan Henry Finnbogason að vopni, klófesti hann. Kjartan er leikmaður KR og fyrrum liðsfélagi Halls í Danmörku.

„Við höfum ekki áhyggjur af því að hann væri að fara neitt annað en í KR, vorum vissir í okkar sök allan tímann."

Myndu óska þess að mega spila öllum leikmönnum
Út í Reykjavíkurmótið, hversu mikilvægt er að gera vel í þessu móti?

„Þetta er elsta mótið á Íslandi og það er skylda okkar, allra Reykjavíkurfélaganna, að taka þátt í mótinu. Það er þannig að við myndum óska þess að það væri hægt að spila í mótinu með leikmenn eins og Hall og Finn."

„Til þess að leyfa þeim að spila og fá þá fyrr inn í hlutina þá þyrftum við að taka þátt í Fótbolta.net mótinu en við ætlum ekki að vera félagið sem mætir ekki í Reykjavíkurmótið út af því að við megum ekki nota einhverja leikmenn. Þetta er það sögufrægt mót og við viljum sýna því þá virðingu sem það á skilið."

„En við værum alveg til í að það væru gerðar breytingar á reglum til þess að við gætum gert það sama og Fótbolta.net mótið gerir. Ég skil ekki alveg af hverju það er ekki í lagi, það verður kannski einhver annar að skýra það út fyrir okkur og mér og sjá hvort við höfum einhver góð rök fyrir því."

„Það er frábært að fá leiki með góðum dómurum, við góðar aðstæður og ennþá getum við gert dálítið margar skiptingar þannig að það er hægt að leyfa mönnum að spila en eins og staðan er núna þá er hópurinn okkar ekki stór. Það eru ákveðin meiðsl, einhverjir búnir að vera í covid og alls konar eins og gengur og gerist hjá flest öllum liðum á landinu held ég. Við erum að komast út úr því og vonandi getum við farið að æfa eins og menn."


Bíða eftir nýju gervigrasi
„Við erum ekki búnir að æfa nægilega vel vegna þess að það var tekin af okkur gervigrasvöllurinn 6. desember og við erum ennþá að bíða eftir því að nýja grasið verði tilbúið svo við getum farið að æfa út í KR. Við erum búnir að vera á flakki út um allan bæ, æfa hér og þar. Þetta hefur ekki alveg verið eins og maður hefði óskað sér en vonandi verður grasið tilbúið innan fárra daga og við getum farið að æfa þar eins og menn og þá hefst þessi undirbúningur okkar kannski af meiri krafti."

Standa ekki jafnfætis liðum í Fótbolta.net mótinu
Rúnar sagði að KR ætlaði ekki að vera félagið sem mæti ekki í Reykjavíkurmótið. Það er nákvæmlega það sem Leiknir gerði í vetur og fékk þar tækifæri til að spila tveimur nýjum Færeyingum í tveimur leikjum. Er Rúnar að skjóta á Leikni?

„Nei, ég er bara að segja að þetta hefur oft komið til tals. Ég ræddi við framkvæmdastjóra KSÍ fyrir 6-7 árum síðan og spurði af hverju þetta væri svona, fékk einhverja útskýringu sem ég man ekki alveg núna hvernig var en tók hana bara góða og gilda."

„Mér finnst Fótbolta.net mótið vera búið að færa sig dálítið mikið upp á skaftið, komið inn á heimasíðu KSÍ með alla leiki og ég veit ekki hvort að KSÍ sjái um dómara fyrir þá líka. Ef svo er þá sé ég engan mun á Reykjavíkurmóti og Fótbolta.net móti."

„Við þurfum kannski að reyna ræða við Knattspyrnuráð Reykjavíkur eða KSÍ og reyna fá þessa breytingu í gegn svo við stöndum kannski jafnfætis hinum liðunum að geta nýtt þessa leikmenn sem við fáum,"
sagði Rúnar.

„KR er elsta félag á Íslandi, við þurfum að sýna þessu móti virðingu finnst mér sem KR-ingur og við munum gera það og mæta í þetta mót áfram. Við erum að spila hér við hörkulið, fáum góða leiki og ég sé enga ástæðu af hverju það eigi að fara breytast," sagði Rúnar.

Viðtalið í heild má sjá í spilaranum að neðan.
„Hrós til þeirra sem hafa hlustað á okkur sem hafa kvartað yfir þessu"
Athugasemdir
banner
banner