Liverpool hafnaði tilboði í Nunez og hefur áhuga á Tzimas - Chelsea hefur sett verðmiða á Nkunku - Rashford vill fara til Barcelona
   mið 04. ágúst 2021 22:30
Brynjar Ingi Erluson
Kári Árna gefur Aberdeen ráð hvernig á að vinna Blika
Kári Árnason er með ráð til Aberdeen í skoska blaðinu Press and Journal
Kári Árnason er með ráð til Aberdeen í skoska blaðinu Press and Journal
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kári Árnason í baráttunni í leiknum gegn Blikum
Kári Árnason í baráttunni í leiknum gegn Blikum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Blikar mæta Aberdeen á morgun
Blikar mæta Aberdeen á morgun
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kári Árnason, leikmaður Víkings R. og fyrrum leikmaður Aberdeen í Skotlandi, gefur sínu gamla félagi góð ráð hvernig á að vinna Breiðablik í forkeppni Sambandsdeildarinnar en liðin eigast við á morgun.

Kári spilaði með Aberdeen í tvö tímabil. Fyrst árið 2011 og svo mætti hann aftur árið 2017.

Aberdeen mætir Breiðablik í forkeppni Sambansdeildarinnar á Laugardalsvelli á morgun klukkan 19:00 og svo aftur í næstu viku í Skotlandi.

Kári er í viðtali við skoska blaðið Press and Journal í dag þar sem hann gefur Aberdeen góð ráð.

„Það er mikilvægt fyrir Aberdeen að ná í fyrsta markið á morgun. Við klúðruðum dauðafæri á fyrstu sjö sekúndunum gegn þeim á dögunum og svo öðru færi stuttu eftir það. Fyrstu tuttugu mínúturnar voru okkar en okkur var refsað fyrir að skora ekki."

„Við erum með ungan hóp af leikmönnum og þetta var einn af þessum dögum. Við vorum 2-0 undir í hálfleik og töluðum um að reyna að skora þriðja markið en þeir náðu í mark úr föstu leikatriði og þá var þetta búið,"
sagði Kári um tapið gegn Blikum.

Hann bendir á að Blikar séu eitt besta lið landsins í að halda bolta og það getur verið erfitt að eiga við þá þegar þeir komast yfir.

„Þegar við spiluðum við þá á heimavelli fyrr á tímabilinu þá unnum við þá örugglega, 3-0. Við náðum í fyrsta markið og beittum skyndisóknum á þá trekk í trekk. Við vorum vissir um að við gætum gert þetta aftur og ef við hefðum nýtt færin í byrjun þá hefðum við getað unnið leikinn."

Gefur Aberdeen mikið að spila á Laugardalsvelli

Leikurinn var færður af Kópavogsvelli og yfir á Laugardalsvöll þar sem völlurinn uppfyllir ekki þau skilyrði sem UEFA setur fyrir leikstað. Það gefur Aberdeen mikið.

„Þeir þurfa leyfi frá UEFA til að spila leiki á eigin velli og hann stenst ekki kröfur. Það að leikurinn hafi verið færður á Laugardalsvöll, þjóðarleikvang Íslands, gefur Aberdeen mikið."

„Það var hagur Aberdeen að spila á öðrum velli en heimavelli Blika því það hefði verið erfiðara fyrir Aberdeen."


Hvað þarf Aberdeen að gera til að vinna Blika?

Kári bendir á nokkra hluti sem Aberdeen þarf að hafa í huga þegar þeir mæta Blikum og hvað þeir þurfa að gera til að landa sigri.

„Þeir spiluðu án þess að hafa níu gegn okkur og Austría Vín og spil á milli bakvarða og vængmanna er öflugt. Þeir munu reyna að særa ykkur þar."

„Ég held að Blikar viti að þeir þurfa að vinna fyrsta leikinn því ég býst við að þeir verði í vandræðum á Pittodrie-leikvanginum en við verðum að muna að þetta er Aberdeen, töluvert stærra lið, og þeir ættu ekki að koma til Íslands og vera passífir."

„Þeir verða að vera varkárir því skyndisóknir Blika eru góðar en við erum ekkert að tala um Barcelona. Sigur þeirra gegn okkur skrifast á slæman dag hjá okkur. Aberdeen getur skapað mikinn usla í föstum leikatriðum og ég býst við að þeir nýti sér það í leiknum."

„Ég fékk fjögur góð skallafæri í leiknum gegn þeim og átti að gera betur og Andy Considine er sterkari í loftinu en ég. Komið boltanum á stóra Consi á fjærstönginni,"
sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner