Trent áfram hjá Real Madrid - Arsenal á eftir Alvarez - Bayern og Liverpool berjast um Diomande
   lau 24. janúar 2026 17:44
Ívan Guðjón Baldursson
Brynjar Ingi stóð sig vel - Benoný byrjaði
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: SPAL
Mynd: Stockport County
Það var nóg um að vera hjá íslensku atvinnumönnunum sem leika erlendis í dag.

Brynjar Ingi Bjarnason lék allan leikinn í hjarta varnarinnar í markalausu jafntefli hjá Greuther Fürth í næstefstu deild þýska boltans. Brynjar og félagar tóku á móti Braunschweig og eru í botnsæti deildarinnar með 16 stig eftir 19 umferðir, fjórum stigum frá öruggu sæti.

Greuther missti mann af velli með rautt spjald á annari mínútu og gerðu Brynjar og félagar því gríðarlega vel að halda út í 90 mínútur til að bjarga stigi. Brynjar er mikilvægur hlekkur í liði Greuther en hann missti af rúmum þremur mánuðum vegna meiðsla og á þeim tíma töpuðu liðsfélagar hans hverjum leiknum á fætur öðrum.

Stefán Teitur Þórðarson sat þá allan tímann á bekknum er Hannover lagði Fortuna Düsseldorf að velli, en Valgeir Lunddal Friðriksson er enn að glíma við meiðsli og var því ekki í hóp hjá Düsseldorf. Hannover er í toppbaráttu, sex stigum frá toppsætinu, á meðan Düsseldorf er á fallsvæðinu.

Hertha Berlin kemur svo tveimur stigum á eftir Hannover en Jón Dagur Þorsteinsson var ónotaður varamaður í 2-2 jafntefli gegn Karlsruher í dag.

Í þriðju efstu deild varði Lúkas Petersson markið hjá varaliði Hoffenheim sem tapaði heimaleik gegn fallbaráttuliði Alemannia Aachen. Þetta er annar tapleikurinn í röð hjá Lúkasi og félögum sem eru búnir að fá sjö mörk á sig í síðustu tveimur leikjum.

Á Ítalíu byrjaði Óttar Magnús Karlsson í frábærum sigri Renate á útivelli gegn Brescia í toppbaráttu í Serie C. Renate er í fimmta sæti með 35 stig eftir 23 umferðir, átta stigum á eftir Brescia sem situr í þriðja sæti.

Á sama tíma var Bjarki Steinn Bjarkason ekki með er Venezia rúllaði yfir Mantova í Serie B. Þetta var sjötti sigurinn í röð hjá Feneyingum sem eru í harðri titilbaráttu, einu stigi á eftir toppliði Frosinone.

Á Englandi var Benoný Breki Andrésson í byrjunarliði Stockport County sem gerði jafntefli á útivelli gegn toppliði Cardiff í þriðju efstu deild. Stockport er í harðri baráttu um að komast upp í Championship deildina.

Benoný fékk tækifæri með byrjunarliðinu eftir að hafa komið inn af bekknum í síðustu leikjum, en hann skoraði gegn Rotherham í síðustu umferð eftir að hafa lagt upp gegn Harrogate í umferðinni þar á undan.

Jason Daði Svanþórsson var þá ekki með í sigri Grimsby í fjórðu efstu deild vegna veikinda. Þetta var fjórði sigur Grimsby í röð og er markmið liðsins að komast í umspil um sæti í næstu deild fyrir ofan.

Kjartan Már Kjartansson var ekki í hóp í stórsigri Aberdeen í skosku deildinni og þá var Hjörtur Hermannsson í leikbanni er Volos tapaði gegn stórveldi Olympiakos í grísku deildinni. Að lokum var Logi Tómasson ónotaður varamaður í markalausu jafntefli hjá Samsunspor í Tyrklandi.


Athugasemdir
banner
banner
banner