Omar Marmoush og Antoine Semenyo skoruðu mörk Manchester City í 2-0 sigri á botnliði Wolves í 23. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag. Harry Wilson var hetja Fulham í dramatískum 2-1 sigri á Brighton á Craven Cottage.
Pep Guardiola gerði nokkrar breytingar á liði sínu. Erling Braut Haaland og Phil Foden voru settir á bekkinn og þá fékk Marc Guehi sinn fyrsta leik með liðinu.
Marmoush var í fremstu víglínu og þakkaði traustið með marki á 6. mínútu eftir laglega fyrirgjöf frá Matheus Nunes. Þetta var fyrsta mark Marmoush síðan í deildabikarnum gegn Swansea í lok október.
Í uppbótartíma fyrri hálfleiks tvöfaldaði Antoine Semenyo forystuna með flottu marki eftir undirbúning Bernardo Silva. Þriðja mark Semenyo fyrir Man City síðan hann kom frá Bournemouth í byrjun mánaðarins.
Góður sigur hjá Man City sem er í öðru sæti með 46 stig, fjórum stigum frá toppliði Arsenal en Wolves er áfram á botninum með aðeins 8 stig.
Fulham vann dramatískan 2-1 sigur á Brighton á Craven Cottage í Lundúnum.
Sænski landsliðsmaðurinn Yasin Ayari skoraði frábært mark fyrir Brighton á 28. mínútu er hann fór á milli tveggja varnarmanna og þrumaði boltanum efst í vinstra hornið.
Nígeríumaðurinn Samuel Chukwueze jafnaði metin á 72. mínútu leiksins eftir frábæran bolta frá Joachim Andersen sem setti hann langan út á hægri vænginn. Chukwueze slapp í gegn og lagði boltann snyrtilega í vinstra hornið.
Wilson, sem hefur reynst Fulham frábær á tímabilinu, gerði síðan sigurmarkið í uppbótartíma með marki beint úr aukaspyrnu og í vinstra hornið. Bart Verbruggen var með puttana í þessu, en náði ekki að verja fast skot Wilson.
Frábær sigur Fulham sem er í 7. sæti með 34 stig en Brighton í 12. sæti með 30 stig.
Cristian Romero bjargaði stigi fyrir Tottenham-menn gegn nýliðum Burnley á Turf Moor en leiknum lauk með 2-2 jafntefli.
Miðverðir Tottenham sáu um mörkin að þessu sinni en það var Hollendingurinn Micky van de Ven sem kom þeim yfir á 38. mínútu með góðu skoti eftir hornspyrnu.
Áður en hálfleikurinn var úti jafnaði Axel Tuanzebe metin með skoti af stuttu færi eftir stórglæsilega fyrirgjöf frá Kyle Walker.
Á 76. mínútu náði Lyle Foster að koma Burnley yfir eftir mikinn vandræðagang í vörn Tottenham. Jadon Anthony lék illa á vörnina áður en hann kom boltanum á Foster sem náði skotinu, en boltinn varinn aftur út á hann og klikkaði hann ekki í annarri tilraun.
Vörn Tottenham leit hræðilega út í þessu marki en það voru líka varnarmennirnir sem komu til bjargar. Romero jafnaði metin með föstum skalla eftir fyrirgjöf Wilson Odobert.
Lokatölur á Turf Moor, 2-2. Tottenham er í 13. sæti með 28 stig en Burnley í næst neðsta sæti með 15 stig.
Manchester City 2 - 0 Wolves
1-0 Omar Marmoush ('6 )
2-0 Antoine Semenyo ('45 )
Fulham 2 - 1 Brighton
0-1 Yasin Ayari ('28 )
1-1 Samuel Chukwueze ('72 )
2-1 Harry Wilson ('90 )
Burnley 2 - 2 Tottenham
0-1 Micky van de Ven ('38 )
1-1 Axel Tuanzebe ('45 )
2-1 Lyle Foster ('76 )
2-2 Cristian Romero ('90 )
Athugasemdir




