Maguire gæti elt McTominay til Napoli - Kolo Muani horfir til Englands - Nkunku vill fara frá Chelsea
   fim 04. ágúst 2022 13:03
Elvar Geir Magnússon
Arnar öskraði 'Fokking fáviti' á dómarann - „Hann gæti fengið lengra bann"
Arnar Grétarsson, þjálfari KA.
Arnar Grétarsson, þjálfari KA.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Reynir Leósson, sérfræðingur Stúkunnar, og Einar Ásgeirsson ljósmyndari.,
Reynir Leósson, sérfræðingur Stúkunnar, og Einar Ásgeirsson ljósmyndari.,
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leiknum á Akureyri.
Úr leiknum á Akureyri.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mönnum var heitt í hamsi á Akureyri þegar KA og KR mættust fyrr í vikunni. Allt sauð upp úr þegar KA vildi fá vítaspyrnu í uppbótartímanum og Arnar Grétarsson, þjálfari KA, fékk að líta rauða spjaldið.

Í Stúkunni á Stöð 2 Sport í gær er sýnt þegar Arnar öskrar 'Fokking fáviti' á fjórða dómara leiksins, Svein Arnarsson, eftir að rauða spjaldið fór á loft.

„Hann viðurkenndi í viðtali að hafa farið inná völlinn og samkvæmt laganna bókstaf er það rautt en svo er það bara spurning hvort það þurfi ekki að lesa í leikinn eins og Arnar segir. Maður sér ekki nákvæmlega allt sem gerist og hvernig hann bregst við. Það er erfitt fyrir okkur að meta hvort þetta hafi verðskuldað rautt spjald eða ekki," segir Baldur Sigurðsson í Stúkunni.

„Mér finnst þessi viðbrögð hjá honum vera persónuleg. Fjórði dómarinn er búsettur á Akureyri og dæmir mikið á norðurlandi. Það sem Arnar segir síðan er langt yfir strikið," bætir Baldur við.

„Hann gæti fengið lengra bann, það gæti alveg verið," segir Reynir Leósson, sérfræðingur þáttarins en Arnar er á leið í tveggja leikja bann þar sem þetta var hans önnur brottvísun á tímabilinu. Reynir telur mögulegt að refsingin verði þyngd frekar.

„Við vorum ekki að kalla fáviti eða hálfviti eða eitthvað slíkt"
Eftir leikinn, sem KA tapaði 0-1, gagnrýndi Arnar Grétarsson aðallega Svein, fjórða dómara leiksins, sem var við boðvangana.

„Það er brotið á mínum leikmanni innan teigs í uppbótartíma og við hlaupum hér og biðjum um víti. Ef að þetta var línan í leiknum að gefa mér rautt spjald fyrir þetta, við vorum ekki að kalla fáviti eða hálfviti eða eitthvað slíkt. Við vorum að biðja um vítaspyrnu," sagði Arnar við Stöð 2 Sport.

„Ég missti mig eftir að ég fékk rauða spjaldið en þegar fjórði dómari er einhver sem hefur enga tilfinningu fyrir leiknum þá færðu svona móment í leikjum. Hann er bara ekki klár í þetta hlutverk, vegna þess að menn hafa þurft að spila leikinn og þurfa að hafa smá tilfinningu fyrir leiknum. Það var engin ástæða til að gefa rautt spjald þarna miða við línuna sem var búin að haldast allan leikinn, þetta var mjög strangur dómur."

Átti KA að fá vítaspyrnu?
Sérfræðingar Stúkunnar eru ekki sammála því hvort dómari leiksins, Egill Arnar Sigurþórsson, hefði átt að dæma KA víti í uppbótartímanum.

„Mér finnst þetta vera víti því hann fer svo hátt með fótinn. Þetta er hættuleg tækling og verðskuldaði brot," segir Baldur en Reynir er ekki á sama máli.

„Þegar ég horfði á þetta fyrst fannst mér þetta ekki vera brot, þegar ég horfði á þetta aftur fannst mér þetta ekki vera brot. Svo sýnið þið mér þetta og maður getur sagt að hægt sé að dæma víti á þetta en í hvaða stöðu er dómarinn til að sjá þetta? Fyrst þegar ég sé þetta finnst mér ekkert vera að þessu. Risamistök hjá dómaranum? Ég veit það ekki. Þegar ég sé þetta sjónarhorn get ég tekið undir að hægt sé að dæma víti en hann virtist bara fara í boltann og koma í veg fyrir skot á markið. Ég ætla bara að vera ósammála þér, mér finnst þetta ekki vera víti," segir Reynir.

Hér má sjá atvikið umrædda:


Athugasemdir
banner
banner
banner