Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   mið 04. desember 2013 17:15
Sigmundur Ó. Steinarsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Spennufallið tekur sinn toll
Sigmundur Ó. Steinarsson
Sigmundur Ó. Steinarsson
Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÞAÐ er ljóst að spennufallið var mikið hjá hinum ungu landsliðsmönnum okkar í knattspyrnu eftir umspilsleikina við Króatíu, þar sem barist var um mjög svo eftirsóttan farseðil á heimsmeistaramótið í Brasilíu 2014. Mikil pressa og spenna var á leikmönnunum – fyrst fyrir heimaleikinn föstudaginn 15. nóvember og síðan á útileikinn í Zagreb fjórum dögum síðar, þar sem hátt í þúsund íslenskir áhorfendur mættu til að styðja við bakið á strákunum.

Takmarkið var að sjálfsögðu að komast á HM í Brasilíu – ekkert annað. Slegið var upp að Ísland væri 90 mínútum frá Brasilíu. Fjölmiðlar fóru á flug og mikið var rætt og ritað um leikinn í Zagreb.

Álagið var mikið á leikmönnum, þjálfurum og öðrum í kringum landsliðið. Því miður náðist ekki takmarkið - það hefði verið gaman að taka þátt í gleðinni og Ríó-stemningunni í Brasilíu.

Vonbrigðin urðu mikil hjá leikmönnunum, sem voru undir miklu álagi er spennan og pressan magnaðist með hverjum deginum. Áfallið varð síðan mikið þegar leikurinn gegn Króatíu tapaðist. Álagið var svo mikið á ungu leikmönnunum okkar að þeir náðu sér ekki á strik - léku ekki eins og áður. Leikmenn brotnuðu eftir leikinn í Zagreb og margir þeirra eru enn að hugsa um HM í Brasilíu - hvað hefði verið gaman að fara þangað.

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson hefur ekki leikið með liði sínu, Cardiff, eftir leikinn í Zagreb og maður gerði sér fyllilega grein fyrir hinum „miklu átökum“ í umspilsleikjunum, þegar Aron Einar sagði þetta í viðtali við Morgunblaðið:
„Ég er alveg heill heilsu en ég hef verið geymdur á bekknum í síðustu tveimur leikjum. Ég neita því ekki að maður var svolítið laskaður andlega og líkamlega eftir umspilsleikina við Króatíu."

Álag og vonbrigði hafa áður tekið sinn toll hjá knattspyrnumönnum. Það gerðist hjá leikmönnum Englands eftir HM í Mexíkó 1970, þar sem þeir misstu unninn leik gegn Vestur-Þjóðverjum niður og voru sendir heim. Það var mikið áfall fyrir leikmenn Englands, en margir reiknuðu með að sterkt lið Englands myndi verja heimsmeistaratitil sinn.

Landsliðsmenn Englands voru ekki þeir sömu þegar deildarkeppnin hófst á Englandi og þegar frammistaða þeirra var gerð upp um áramótin 1970-1971 kom í ljós að allir landsliðsmennirnir höfðu leikið undir getu í fjóra mánuði – náðu sér hreinlega ekki á strik.

Knattspyrnusérfræðingar, sálfræðingar og læknar voru sammála um að mikið álag var á leikmönnum Englands fyrir HM. Bobby Moore, fyrirliði, var handtekinn í Kólumbíu og var í haldi í fjóra daga , þegar logið var upp á hann og hann ákærður fyrir að hafa stolið demantsarmbandi. Þá fékk Gordon Banks magakveisu fyrir leikinn gegn Þjóðverjum og gat ekki leikið. Banks var fullviss um að eitrað hafi verið fyrir hann.
Já, spennan og pressan var mikil á heimsmeisturunum – og síðan komu vonbrigðin: Andlegt og líkamlegt áfall, eins og Aron Einar sagði frá.

Það hafa margir knattspyrnumenn upplifað mikið spennufall – Hollendingar eftir HM 1974 og 1978. Þjóðverjar eftir HM 1982 og Englendingar og Þjóðverjar eftir HM 1986, Englandingar eftir HM 1990 er þeir féllu úr leik í undanúrslitum eftir vítaspyrnukeppni við Þjóðverja. Svona má lengi telja.

Það er vel skiljanlegt að okkar landsliðsmenn séu enn ekki búnir að ná sér – fyrir ekki þremur vikum var HM í Brasilíu svo nálægt, ekki nema 90 mínútum frá!

Knattspyrnukveðja,
Sigmundur Ó. Steinarsson
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner