Brasilíski sóknartengiliðurinn Oscar spilaði sinn síðasta leik fyrir kínverska félagið Shanghai Port í gær.
Oscar, sem er 33 ára gamall, spilaði með Internacional og Sao Paulo áður en hann samdi við Chelsea árið 2012.
Þar spilaði hann í fimm ár og var í uppáhaldi margra en hann lék 203 leiki og kom að 69 mörkum á tíma sínum þar. Á þessum tíma vann hann ensku úrvalsdeildina tvisvar, Evrópudeildina og deildabikarinn.
Brasilíumaðurinn tók það óvænta skref að fara til Kína í janúar árið 2017. Á þessum tíma voru margir leikmenn að horfa til Kína, sem bauð leikmönnum fúlgur fjár til að spila í landinu.
Margir entust ekki lengi þar en Oscar hefur haldið tryggð sína við Shanghai í sjö ár og verið þeirra langbesti leikmaður.
Á þessu tímabili skoraði hann 14 mörk og gaf 24 stoðsendingar er Shanghai varð deildarmeistari og þá hjálpaði hann liðinu að vinna bikarinn.
Oscar vann deildina þrisvar sinnum á sjö árum ásamt því að vinna bikarinn og Ofurbikar Kína. Í gær brast hann í grát í kveðjuleik sínum með félaginu en samningur hans rennur út um áramótin og er hann tilbúinn að takast á við nýjar áskoranir.
Samkvæmt erlendum miðlum hafa Flamengo, Internacional og Sao Paul öll áhuga á að fá hann en bandaríska félagið Los Angeles FC er einnig í baráttunni.
Shanghai Port hefur boðið honum nýjan samning en hann myndi aðeins þéna 3 milljónir evra í árslaun. Á þessum sjö árum hans í Shanghai þénaði hann rúmar 200 milljónir evra og var einn launahæsti leikmaður heims.
Launaþak var sett á kínversku deildina árið 2020 og getur því Shanghai ekki boðið honum hærri laun. Samkvæmt brasilískum miðlum mun hann ekki samþykkja boðið og kvaddi hann því stuðningsmenn félagsins í gær.
Oscar spilaði 48 A-landsleiki og skoraði 12 mörk á landsliðsferli sínum með Brasilíu. Hann fór með liðinu á HM 2014 en hefur ekki verið valinn í hópinn síðan 2016.
Oscar prepara-se para deixar os chineses do Shanghai Port após 8 anos no clube e foi às lágrimas com os adeptos a pedirem que fique. pic.twitter.com/2C30qDovVm
— B24 (@B24PT) December 4, 2024
Athugasemdir