Gulldrengur Todd Boehly og félaga
Rosenior verður ekki á hliðarlínunni annað kvöld er Chelsea mætir Fulham. Fyrsti leikur undir hans stjórn verður næstkomandi laugardag gegn Charlton í FA-bikarnum.
Liam Rosenior var fyrr í dag kynntur sem nýr stjóri Chelsea og hefur skrifað undir sex ára samning við Lundúnaliðið.
Rosenior kemur til Chelsea frá Strasbourg, systurfélags Chelsea. Bæði félög eru undir eignarhaldi BlueCo, fjárfestingarfélags sem leitt er af Todd Boehly og félögum hans í Clearlake Capital.
Nafn Rosenior hefur á skömmum tíma skotist hratt upp á stjörnuhimininn, en hver er þessi maður sem forráðarmenn Chelsea hafa lagt traust sitt á?
Rosenior kemur til Chelsea frá Strasbourg, systurfélags Chelsea. Bæði félög eru undir eignarhaldi BlueCo, fjárfestingarfélags sem leitt er af Todd Boehly og félögum hans í Clearlake Capital.
Nafn Rosenior hefur á skömmum tíma skotist hratt upp á stjörnuhimininn, en hver er þessi maður sem forráðarmenn Chelsea hafa lagt traust sitt á?
Leikmaðurinn Rosenior
Sem leikmaður átti Rosenior kannski eftirminnilegasta leikmannaferilinn en tókst þó að spila 141 leik í ensku úrvalsdeildinni. Sem ungur leikmaður þótti hann mikið efni og spilaði lengst af sem hægri bakvörður.
Hann kom víða við á Englandi en hann lék fyrir Fulham, Reading, Hull, Ipswich og síðast Brighton. Ásamt því á hann landsleiki fyrir yngri lið Englands á bakinu.
Eftir að hann lagði skóna á hilluna árið 2018 sneri hann sér að þjálfun hjá yngri liðum Brighton. Síðar meir var hann fenginn til Derby og starfaði hann þar í um tvö ár og var þar á meðal aðstoðarmaður Wayne Rooney.
Frá Hull til Strassborgar
Fyrsta aðalþjálfaragiggið kom hjá Hull City, þar sem hann náði góðum árangri í ensku B-deildinni. Á fyrra tímabili sínu með liðið endaði hann með liðið í 15. sæti.
Þess má einnig geta að fyrir rúmum tveimur árum mættust Liam Rosenior og forveri hans hjá Chelsea, Enzo Maresca, þegar liðin þeirra áttust við í ensku Championship-deildinni. Þá stýrði Maresca Leicester, en Rosenior var við stjórnvölinn hjá Hull City.
Leiknum lauk með 1–0 sigri liðs Rosenior og var það Liam Delap, núverandi leikmaður Chelsea, sem skoraði sigurmarkið.
Þá bætti hann um betur á næsta tímabili og endaði hann í 7. sæti með liðið sem rétt missti af umspilssæti. Fyrir þann árangur var Rosenior valinn þjálfari tímabilsins í Championship deildinni.
Árangurinn heillaði stjórnarmenn Strasbourg og sótti það þjálfarann efnilega eftir að félagið lét Patrick Vieira fara sumarið 2024. Á fyrsta tímabíli sínu í Frakklandi endaði hann með liðið í 7. sæti.
Nú er liðið enn í 7. sæti en það endaði á toppi í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar nýverið með fimm sigra og eitt jafntefli.
Gulldrengur BlueCo
Það er ljóst að það eru mikil líkindi á meðal Chelsea og Strasbourg, bæði lið reyna að byggja á ungum leikmannahóp og horft er til framtíðar.
Þeir frönsku eru með yngsta leikmannahópinn meðal stærstu deilda Evrópu, meðalaldur liðsins aðeins 21,5 ár. Chelsea er í fjórða sæti á sama lista, með þann yngsta á Englandi.
Eins og áður sagði eru Chelsea og Strasbourg systurfélög, bæði í eigu BlueCo. Strasbourg var selt til BlueCo í júní 2023 fyrir um 65 milljónir punda, aðeins rúmu ári eftir að sami eigendahópur keypti Chelsea fyrir 4,25 milljarða punda.
Fjöldi leikmanna hafa flakkað á milli félaganna og nú bætist Rosenior við inn í flóruna. Rosenior er afar vinsæll innan BlueCo og hefur verið slúðrað síðustu mánuði um það að hann hafi verið ætlaður í það að vera framtíðarstjóri Chelsea. Eitthvað sem raungerðist en eflaust mun fyrr en margir héldu.
Samningsbundinn til ársins 2032
Það sem hefur eflaust vakið mesta athygli á ráðningunni er lengd samningsins. Stuðningsmenn liðsins eru missáttir við lengdina. Chelsea er félag sem er ekki þekkt fyrir að vera þolinmótt í garð þjálfara og hefur lítil breyting verið þar á þrátt fyrir að Roman Abramovich hafi yfirgefið félagið fyrir tæpum fjórum árum.
Enzo Maresca var langlífasti stjórinn frá því að BlueCo tók við eignarhaldi félagsins. Alls hefur félagið látið fjóra fastráðna stjóra fara frá árinu 2022. Hér fyrir neðan má sjá hve lengi stjórarnir voru við stjórnartaumana.
Thomas Tuchel - 106 dagar (frá því að BlueCo tók við eignarhaldinu)
Graham Potter - 206 dagar
Mauricio Pochettino - 325 dagar
Enzo Maresca - 549 dagar
Hvort að Rosenior nái að stýra liðinu út samning sinn verður framtíðin ein að leiða í ljós. Sagan segir okkur þó að það séu yfirgnæfandi líkur á að hann verði búinn að láta taka pokann sinn fyrir árið 2032.
Athugasemdir




