Það hafa nokkrir Íslendingar komið við sögu í leikjum dagsins víðsvegar um Evrópu, þar sem Ísak Bergmann Jóhannesson og Valgeir Lunddal Friðriksson voru báðir í byrjunarliðinu hjá Fortuna Düsseldorf í næstefstu deild þýska boltans.
Þeir tóku á móti Hamburger SV og töpuðu leiknum 0-3 þrátt fyrir að hafa átt mikið af góðum færum, þar sem Ísak skapaði nokkur dauðafæri sem fóru þó forgörðum.
Þetta er fyrsta tapið hjá Düsseldorf á nýju tímabili og er liðið á toppi deildarinnar með 17 stig eftir 8 umferðir.
Í efstu deild danska boltans gerði Sævar Atli Magnússon jöfnunarmark Lyngby í 1-1 jafntefli á útivelli gegn Randers á meðan Daníel Leó Grétarsson og félagar í liði Sönderjyske steinlágu á heimavelli gegn Nordsjælland.
Lyngby og Nordsjælland eru í fallbaráttunni með 8 stig eftir 11 umferðir.
Mikael Anderson var þá í byrjunarliði Árósa sem gerðu jafntefli við Viborg. Þetta var fjórði jafnteflisleikurinn í röð hjá AGF og situr liðið í öðru sæti með 20 stig.
Það fóru einnig leikir fram í Svíþjóð, þar sem Íslendingalið Norrköping tapaði á heimavelli gegn Göteborg, en Kolbeinn Þórðarson var ekki með í liði gestanna.
Ísak Andri Sigurgeirsson og Arnór Ingvi Traustason voru í liði Norrköping og bar Arnór fyrirliðabandið, en þeim tókst ekki að koma í veg fyrir 0-2 tap í nokkuð jafnri viðureign.
Norrköping er þremur stigum fyrir ofan fallsæti þegar fjórar umferðir eru eftir.
Andri Fannar Baldursson var ónotaður varamaður í 4-1 tapi Elfsborg á útivelli gegn Sirius á meðan Malmö gerði 1-1 jafntefli við Varnamo en Daníel Tristan Guðjohnsen var ekki í hóp.
Malmö er aðeins einum sigri frá því að tryggja sér Svíþjóðarmeistaratitilinn í ár á meðan Elfsborg er sex stigum frá Evrópusæti.
Að lokum vann Ajax 3-1 sigur gegn Groningen í efstu deild hollenska boltans, en Kristian Nökkvi Hlynsson og Brynjólfur Andersen Willumsson voru ekki með.
Randers 1 - 1 Lyngby
1-0 Oliver Olsen ('40)
1-1 Sævar Atli Magnússon ('66)
Dusseldorf 0 - 3 Hamburger SV
Sonderjyske 1 - 4 Nordsjælland
Viborg 1 - 1 AGF
Norrkoping 0 - 2 Goteborg
Sirius 4 - 1 Elfsborg
Malmo 1 - 1 Varnamo
Ajax 3 - 1 Groningen
Athugasemdir