Samantha Smith, leikmaður Breiðabliks, náði ótrúlegum árangri í gær þegar hún vann Bestu deildina með Kópavogsliðinu en hún hefur núna unnið bæði Bestu deildina og Lengjudeildina á sama árinu.
FHL vann Lengjudeildina í ár en þegar það var búið að vinna deildina var Samantha lánuð til Breiðabliks. Hún átti eftir að eiga stórkostlegt tímabil með Breiðablik þrátt fyrir að hafa spilað einungis rúmt hálft tímabil með Kópavogsliðinu.
Samantha þarf því núna að taka erfiða ákvörðun hvort henni langar að spila með Breiðablik eða FHL á næsta tímabili.
„Ég þarf að taka stóra ákvörðun og ég veit ekki hvað ég á að gera. Ég myndi alveg vilja það að spila með þessum hópi (Breiðablik) aftur, þær eru frábærar. Við getum unnið deildina aftur á næsta ári. Sjáum til.“ sagði Samantha þegar hún eftir leikinn við Val í gærkvöldi.
Samantha segir að hún og Nik hafi fundað um það hvort hún eigi að halda áfram hjá Breiðablik eða ekki. Nik vill halda Samönthu í Breiðabliki en hún þarf að taka stóra ákvörðun núna hvort hún fari í FHL aftur eða haldi áfram í Kópavoginum.
„Ég og Nik töluðum saman fyrir nokkrum vikum um þetta og ég er alveg klárlega að hugsa um að halda áfram hjá Breiðablik. Draumurinn minn er að spila í öðrum löndum í heiminum, ég veit ekki hvort ég geri það núna eða seinna. Ég væri til í að vera áfram í Breiðabliki. Mér finnst gott að vera hérna en ég er að taka þetta bara frá degi til dags. Sjáum til.“ sagði Samantha svo.
Viðtalið við Samönthu eftir Valsleikinn í gær má sjá í spilaranum hér að neðan í heild sinni.