Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   fös 07. júní 2013 10:30
Sigmundur Ó. Steinarsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Söguleg "skot" frá Hermanni Gunnarssyni á Laugardalsvelli
"Eins og töframaður með kúlu á leiksviði"
Sigmundur Ó. Steinarsson
Sigmundur Ó. Steinarsson
Fjórir af
Fjórir af "Vormönnum Íslands" 1966 ganga af leikvelli eftir tap gegn Dönum í U24 leik. Hermann Gunnarsson, fyrir miðju, Eyleifur Hafsteinsson, ÍA, fyrirliði, til vinstri og Magnús Torfason, Keflavík, til hægri. Jóhannes Atlason, Fram, er fyrir aftan þá - lengst til vinstri. Hermann. Magnús og Jóhannes klæddust landsliðspeysunni í fyrsta skipti í leiknum.
Mynd: Sigmundur Ó. Steinarsson
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hermann Gunnarsson, sem lést þriðjudaginn 4. júní, klæddist landsliðspeysu Íslands fjórtán sinnum á Laugardalsvellinum. Hermanns verður minnst fyrir leik Íslands og Slóveníu í undankeppni HM í Brasilíu á vellinum í kvöld, föstudaginn 7. júní, kl. 19. Fyrir leikinn verður klappað í mínútu til að minnast Hermanns og leikmenn Íslands leika með sorgarbönd.

Hermann (F. 9. desember 1946) klæddist landsliðspeysu Íslands í 23 leikjum (20 a-leikjum, einum U24 leik og tveimur U23 leikjum) og skoraði sex mörk, öll í a-leikjunum. Í tilefni leiksins í kvöld er rétt að rifja upp nokkur eftirminnileg og söguleg "skot" frá Hermanni í landsliðspeysunni á Laugardalsvellinum.

* 4. júlí 1966: Ísland - Danmörk 0:3. Liðin voru skipuð leikmönnum 24 ára og yngri og voru leikmenn liðsins kallaðir "Vormenn Íslands". Hermann klæddist þá landsliðspeysunni í fyrsta skipti fyrir framan 7.913 áhorfendur.
Hermann, sem náði sér ekki á strik í leiknum frekar en aðrir leikmenn, sagði að liðið hefði leikið undir getu. "Við fengum á okkur klaufamörk, sem setti okkur út af laginu. Það er líka alltaf sama sagan — við erum með "komplexa" þegar við leikum við erlend lið."

* 15. ágúst 1966: Ísland - Wales 3:3. Hermann opnaði markareikning sinn með því að skora jöfnunarmarkið á 90. mín. leiksins. "Það var ánægulegt að skora þetta mark. Ég fékk knöttinn og lék á mótherja. Þegar ég leitaði eftir samherja til að senda knöttinn til - sá ég engan á lausu. Ég tók þá á rás og spyrnti knettinum á markið. Þegar ég sá knöttinn hafna í netinu tók hjartað vissulega smá sprett - það er óskadraumur hvers nýliða að skora mark í sínum fyrsta landsleik," sagði Hermann, sem var 19 ára.
Jón Jóhannsson, skoraði fyrsts mark Ísland - einnig í sínum fyrsta landsleik: jafnaði 1:1, og Ellert B. Schram skoraði annað markið, jafnaði 2:2. Wales tefldi fram áhugamannalandsliði sínu.

* 2. júlí 1968: Ísland - Vestur-Þýskaland 1:3. Hermann skoraði fyrsta mark leiksins gegn áhugamannaliði Vestur-Þýskalands. Alfreð Þorsteinsson, íþróttafréttamaður Tímas, skrifaði: "Walter Pfeiffer, þjálfari, gerði það eina rétta, þegar hann lagði „4-3-3" leikaðferð fyrir íslenska liðið í byrjun. Hermann Gunnarsson var færður aftur á miðjuna og lék sem þriðji tengiliður með Þórólfi Beck og Eyleifi Hafsteinssyni. Í fyrri hálfleiknum voru þessir þrír leikmenn áberandi bestu leikmenn liðsins. Það var dálítið framandi að sjá Hermann leika í stöðu tengiliðs, en hann gerði þeirri stöðu ágæt skil í fyrri hálfleik. Elmar Geirsson hafði hlutverkaskipti við hann í síðari hálfleik."

* 7. júlí 1970: Ísland - Danmörk 0:0. Alfreð skrifaði í Tímann eftir að Danir voru heppnir að sleppa með jafntefli. "Í framlínunni var Hermann hættulegastur. Þó að Hermann hafi ekki tekist að skora í þessum leik, þá var hann liðinu ómetanlegur styrkur. Hann er einn af þeim leikmönnum, sem eru líklegir til að gera eitthvað aukalega."
Hermann í viðtali við Kjartal L. Pálsson í Tímanum: "Eftir þessu að dæma hefðum við átt að vera í þriðja til fimmta sæti í HM í Mexíkó. Danir gerðu jafntefli við Svía, við gerðum jafntefli við Dani og Svíar unnu Úrúgvæmenn, sem urðu í fjórða sæti á HM. En það er nú víst ekki svo gott."

* 20. júlí 1970: Ísland - Noregur 2:0. Hermann tryggði sigurinn með tveimur mörkum á 61. og 63. mín. Hermann sagði þá: "Ég er mjög ánægður með leikinn. Hann undirstrikar það sem ég sagði eftir leikinn við Danina - að við erum jafn góðir ef ekki betri en aðrar Norðurlandaþjóðir."
Alfreð sagði þannig frá Hermanns þætti Gunnarssonar í Tímanum: "Hermann lék sannarlega aðalhlutverkið í skemmtilegasta og ánægjulegasta sjónarspili íslenskrar knattspyrnu í mörg ár, sem var síðari hálfleikur þessa leiks. Það fer ekki alltaf mikið fyrir þessum lágvaxna leikmanni, en þegar hann fær knöttinn, meðhöndlar hann þennan litla hlut eins og töframaður kúlu á leiksviði, getur látið hana hverfa og sýnt hana síðan á allt öðrum stað. Bæði mörkin, sem hann skoraði, vora glæsileg."

* Hin tvö mörkin sem Hermann skoraði með landsliðinu, setti hann í leiknum fræga gegn Dönum í Kaupmannahöfn 1967, 14:2, og gegn Noregi í tapleik í Bergen 1971, 3:1.

Blessuð sé minning Hermanns Gunnarssonar.
Athugasemdir
banner