Haukar tilkynntu í morgun að Guðrún Jóna Kristjánsdóttir hafi bætt tveimur þjálfurum inn í teymi sitt hjá meistaraflokki kvenna.
Guðrún Jóna var þjálfari Hauka í sumar en fær nú Katrínu Ómarsdóttur inn í teymið sér við hlið en hún var spilandi aðstoðarþjálfari í KR í sumar. Þá hefur Agnes Þóra Árnadóttir verið ráðin styrktarþjálfari.
Guðrún Jóna var þjálfari Hauka í sumar en fær nú Katrínu Ómarsdóttur inn í teymið sér við hlið en hún var spilandi aðstoðarþjálfari í KR í sumar. Þá hefur Agnes Þóra Árnadóttir verið ráðin styrktarþjálfari.
Tilkynning Hauka:
Guðrún Jóna Kristjánsdóttir og Katrín Ómarsdóttir hafa gert samning við knattspyrnudeild Hauka um þjálfun meistaraflokks kvenna fyrir komandi tímabil. Þá verður Agnes Þóra Árnadóttir styrktarþjálfari liðsins.
Guðrún Jóna var þjálfari meistaraflokks kvenna á síðasta tímabili en hún hefur starfað innan knattspyrnudeildar Hauka síðan haustið 2017. Hún spilaði tæplega 200 leiki með meistaraflokk KR og á að baki 25 A landsleiki en hún hefur m.a. þjálfað meistaraflokka KR, FH og Þróttar R. Jóna mun áfram sinna afreksæfingum innan Hauka þannig að hún þekkir vel til ungra og efnilegra leikmanna félagsins.
Katrín kemur ný inn í teymið en hún býr yfir afar mikilli reynslu sem leikmaður og þá var hún í þjálfarateymi KR á síðustu leiktíð. Hún á að baki 189 leiki með meistaraflokki KR þar sem hún skoraði 57 mörk auk þess sem hún spilaði 69 A landsleiki og skoraði 10 mörk. Þá spilaði hún með Orange CW í Bandaríkjunum, Kristianstad í Svíþjóð og Liverpool þar sem hún varð m.a. enskur meistari. Katrín mun eins og Jóna vera með sérstakar afreksæfingar.
Agnes Þóra kemur einnig ný inn í þjálfarateymi meistaraflokks kvenna sem styrktarþjálfari liðsins og næringafræðingur en hún á að baki 177 leiki með meistaraflokki, flesta með KR og Þrótti R. Agnes er Master of Sports Nutrition frá University of Colorado og hefur m.a. lokið starfsnámi við styrktarþjálfun þróttamanna. Hún var þjálfari hjá Toppþjálfun þar sem hún var með meistaraflokk kvenna hjá Þrótti og þá hefur hún þjálfað yngri flokka í knattspyrnu.
Halldór Jón Garðarsson, formaður knattspyrnudeildar Hauka, segir að stjórn knattspyrnudeildar bindi miklar vonir við þær Jónu, Katrínu og Agnesi. „Okkar markmið er skýrt. Við ætlum að vera með öflugt lið á næsta tímabili sem mun berjast um að komast í deild þeirra bestu. Við ætlum okkur að styrkja liðið með ákveðnum leikmönnum og viljum m.a. fá reynslubolta og góða karaktera sem miðla áfram til okkar yngri leikmanna. Jóna og Katrín eru miklir fótboltaheilar og hafa mikla ástríðu þegar kemur að fótbolta og það er auðvitað frábært tækifæri fyrir alla leikmenn að fá að vinna með þeim þar sem þær báðar voru topp leikmenn. Agnes mun svo auka enn frekar faglega þáttinn í styrktarþjálfuninni út frá hverjum og einum leikmanni og svo er það auðvitað frábært að hún hefur töluverða reynslu og mikla þekkingu á fótbolta.“
Athugasemdir