Kluivert orðaður við Newcastle - Gerrard með tilboð frá Carlisle - Sesko og Zubimendi færast nær Arsenal
   lau 07. desember 2024 19:29
Brynjar Ingi Erluson
England: Man Utd tapaði fyrir Forest á Old Trafford
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Andre Onana átti slakan dag í marki United
Andre Onana átti slakan dag í marki United
Mynd: EPA
Manchester Utd 2 - 3 Nott. Forest
0-1 Nikola Milenkovic ('2 )
1-1 Rasmus Hojlund ('18 )
1-2 Morgan Gibbs-White ('47 )
1-3 Chris Wood ('54 )
2-3 Bruno Fernandes ('61 )

Manchester United tapaði fyrir Nottingham Forest, 3-2, í 15. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Old Trafford í dag. Þetta var annað tapið í röð undir stjórn Ruben Amorim.

Gestirnir frá Forest fengu draumabyrjun er Nikola Milenkovic stangaði hornspyrnu Elliot Anderson í netið á 2. mínútu. Boltinn kom á nærsvæðið þar sem Milenkovic stökk hæst allra og stangaði hann framhjá hreyfingarlausum Andre Onana í markinu.

United jafnaði metin sextán mínútum síðar. Manuel Ugarte kom með stungusendingu inn á Bruno Fernandes. Matz Sels varði skot hans en Rasmus Höjlund var mættur til að fylgja eftir og skoraði þriðja mark sitt undir stjórn Amorim.

Jota Silva var hársbreidd frá því að taka forystuna fyrir Forest á 27. mínútu en skalli hans hafnaði í samskeytunum og út í teiginn.

Á lokamínútum fyrri hálfleiks var Fernandes ekki langt frá því að koma heimamönnum yfir. Hann tók aukaspyrnu sem breytti um stefnu eftir að hafa farið af veggnum en Sels náði að bregðast við á síðustu stundu með glæsilegri vörslu.

United fór seinni hálfleikinn hræðilega af stað. Fernandes átti vonda sendingu til baka á Callum Hudson-Odoi sem fann Morgan Gibbs-White fyrir utan teiginn. Hann lét vaða á markið en Onana misreiknaði skotið og hafnaði boltinn framhjá honum og í netið.

Sjö mínútum síðar tvöfaldaði Chris Wood forystu gestanna er Gibbs-White kom kom fallega fyrirgjöf á fjær á Wood sem stangaði boltann í netið. Ágætis afmælisdagur hjá Ný-Sjálendingnum sem var að skora tíunda deildarmark sitt.

United-menn í algeru rugli en þeim tókst að minnka muninn þegar hálftími var eftir. Amad Diallo var með boltann í teignum, fann Fernandes sem var við vítateigslínuna. Hann skaut í fyrsta, efst upp í vinstra hornið. Hans þriðja mark í deildinni.

Varnarmenn Forest gerðu vel síðustu tuttugu mínúturnar þar sem Ryan Yates, fyrirliði liðsins, elti Fernandes út um allan völl til að koma í veg fyrir að hann næði að skapa eitthvað fyrir heimamenn.

Lisandro Martínez komst næst því að jafna metin þegar lítið var eftir af uppbótartímanum en tilraun hans fór rétt yfir markið.

United leitaði að jöfnunarmarkinu en það fannst ekki. Lokatölur 3-2 fyrir Forest sem var að vinna fyrsta leik sinn á Old Trafford í þrjá áratugi.

Forest fer upp í 5. sæti deildarinnar með 25 stig en United, sem var að tapa öðrum leik sínum í röð, er í 13. sæti með 19 stig, átta stigum frá Meistaradeildarsæti.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner