Mikið er þessa dagana skrafað og skeggrætt um fjölgun leikja í efstu deild karla í knattspyrnu og er það vel. Þær tillögur sem þar liggja á borði eru allar áhugaverðar og mikilvægt að ræða þær en þær eru ekki það sem ég ætla að gera umfjöllunar efni mínu hér. Mig langar að einblína á hvernig við getum gert neðri deildir (karla og kvenna) meira spennandi.
Ég er stuðningsmaður, íþróttafulltrúi og aðstoðarþjálfari hjá karlaliði Þórs á Akureyri en skrifa ekki sem slíkur hér heldur sem knattspyrnuáhugamaður fyrst og fremst. Mig langar að sjá meiri spennu í lengri tíma í neðri deildum.
Oft er það svo að þegar miður ágúst gengur í garð er sumarið svona nánast að verða „búið“ hjá þeim liðum sem sigla gamla góða lygna sjóinn í 5, 6, 7. sæti neðri deildanna. Engin Evrópuséns eins og í efstu deild og lítil hætta á falli. Þetta verður svo aftur til þess að liðin verða fyrir tekjumissi þar sem áhorfendum fækkar óumflýjanlega þegar nánast ekkert er í húfi. Þetta finnst mér að við þurfum að laga og legg því eftirfarandi til.
Að loknu keppnistímabili fer 1.sæti hverrar deildar beint upp í deildina fyrir ofan. 2. sæti til 5.sæti fer í umspil um hitt lausa sætið sem fer fram svona:
2.sæti gegn 5.sæti á heimavelli liðsins sem varð í öðru sæti.
3.sæti gegn 4.sæti á heimavelli liðsins sem varð í þriðja sæti.
Úrslitaleikurinn sjálfur um sæti í deildinni ofar fari fram á heimavelli þess liðs sem endaði ofar í deildinni.
Leikirnir verði eins og bikarleikir, þ.e. að ferðakostnaði er deilt á milli liða sem og áhorfendatekjum.
Með þessu tryggjum við að mínu mati það sem er feykilega mikilvægt í öllu tali um umspil. Það er að segja að liðin græði á því að enda sem efst í deildinni, þau tryggja sér nefnilega heimaleikjarétt. Eins og í körfu- og handbolta. Enda megum við ekki niðurfæra árangur í deild að mínu mati, hann á að skipta miklu máli í öllu svona samhengi. Liðin sem enda neðar hins vegar fá sömu tekjur.
Jafnframt erum við þarna að gera deildarkeppnir miklu meira spennandi í lengri tíma og fyrir miklu fleiri lið. Þegar þú ert í 6.sæti stigi á eftir 5.sæti fyrir síðustu umferð er hellingur í húfi!
Ekki skyldi gleyma að tekjuburður þessara leikja yrði eflaust gríðarlega mikill, sér í lagi í næst efstu deildum.
Vil einnig skjóta því að, að í efstu deild kvenna mætti hafa samafyrirkomulag um seinna evrópusætið, þ.e. að 2.-5.sæti þar spili umspil um evrópusætið. Þannig myndum við að sama skapi gera deildarkeppnina þar meira spennandi í lengri tíma.
Jón Stefán Jónsson, knattspyrnuþjálfari
Athugasemdir