Ég vorkenndi Gísla Páli Helgasyni leikmanni Þórs mikið þegar ég ræddi við hann í dag. Gísli Páll gekk til liðs við uppeldisfélag sitt Þór á ný í vor og frá undirskrift var laugardagurinn 11. júlí sá leikdagur sem hann beið langspenntastur eftir í sumar. Þá mætast Þór og KA í grannaslag í fyrsta skipti í deildarkeppni síðan árið 2012.
Gísli fær ekki að spila fótboltaleikinn á laugardag þrátt fyrir að vera fastamaður í liði Þórs. Ástæðan? Fáránlegt rautt spjald sem hann fékk gegn Selfyssingum í gærkvöldi. Gísli Páll fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir litlar sem engar sakir í viðbótartíma.
Pétur Guðmundsson, dómari leiksins í gær, er ekki vanur því að lyfta spjöldum af óþörfu og ég er handviss um að hann sjái eftir spjaldinu þegar hann horfir á leikinn í dag. Dómarar gera að sjálfsögðu mistök eins og leikmenn en það ósanngjarna er að leikmenn geta þurft að líða fyrir mistök dómara í næsta leik á meðan dómarar gera það ekki.
Síðast þegar KA og Þór mættust í grannaslag árið 2012 var svipað uppi á teningnum og núna. Jóhann Helgi Hannesson, framherji Þórs, var í banni eftir gjörsamlega glórulaust rautt spjald sem Þórður Már Gylfason gaf honum eftir baráttu við Nigel Quashie, þáverandi leikmann ÍR.
Þetta eru einungis tvö atvik af nokkrum undanfarin ár þar sem leikmenn þurfa að sitja af sér refsingu fyrir rauð spjöld sem eru röng. Það er mikil refsing að fá ranglega rautt spjald og þurfa að fara af velli. Að bæta leikbanni ofan á það er gífurlega hart.
Því kalla ég eftir því að KSÍ fari að leyfa félögum að áfrýja rauðum spjöldum sem eru augljóslega röng. Árið er 2015 og á flestum leikjum í meistaraflokki eru myndbandsupptökuvélar. Ef fjölmiðlar eru ekki mættir til að taka upp eru félögin oftar en ekki sjálf að taka upp leikina til að leikgreina þá og er það vel. Hægt er að leyfa aganefnd KSÍ að skoða myndbandsupptökur til að úrskurða í málum þar sem að rauðum spjöldum er áfrýjað.
Vonandi styttist í að félög geti áfrýjað rauðum spjöldum því að það er nógu ósanngjarnt að fá ranglega rautt spjald í leik. Að þurfa að sitja upp í stúku í næsta leik að auki er fáránlegt.
Athugasemdir