fim 08. september 2022 21:11
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ástríðan
Ástríðan birtir yfirlýsingu í kjölfarið á umræðu um dómara
Knattspyrnudómarafélag Norðurlands telur eðlilegt að Birgir dæmi leiki hjá Dalvík/Reyni
Birgir Þór Þrastarson.
Birgir Þór Þrastarson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik hjá Dalvík/Reyni.
Úr leik hjá Dalvík/Reyni.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Einnig úr leik hjá Dalvík.
Einnig úr leik hjá Dalvík.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Fyrr í þessari viku var umræða um í hlaðvarpsþættinum Ástríðunni um dómarann Birgi Þór Þrastarson sem hefur dæmt síðustu tvo leiki Dalvíkur/Reynis

Í þættinum var sagt að Birgir væri Dalvíkingur og fyrrum leikmaður Dalvíkur/Reynis. Því væri hann hlutdrægur í leikjum félagsins. Var talað um það í þættinum að í síðustu tveimur leikjum Dalvíkur/Reynis hefðu Kormákur/Hvöt og Elliði verið ósátt við dómgæslu hans.

Kom fram í Ástríðunni að Elliði hefði reynt að fá KSÍ til að skipta um dómara á leikdegi gegn Dalvíki/Reyni, en ekki fengið þá beiðni samþykkta.

„Degi fyrir leik kemur inn hver er að dæma. Elliði sendir tölvupóst á KSÍ um að hann sé hlutdrægur. Þeir spyrja hvort þeir geti fengið hlutlausan dómara á þennan leik," sagði Gylfi Tryggvason í þættinum.

Það var umræða um það í þættinum hvort Birgir ætti að dæma leiki Dalvíkur/Reynis þar sem hann væri fyrrum leikmaður félagsins, en það var einnig minnst á það að hann væri Dalvíkingur og stuðningsmaður liðsins - sem er ekki rétt.

Hann lék vissulega með Dalvík/Reyni á sínum leikmannaferli en að sögn Knattspyrnudómarafélagsins á Norðurlandi, þá hefur hann enga aðra tengingu við félagið fyrir utan þær 38 mínútur sem hann spilaði með því í deild og bikar árið 2008. Hann sé Akureyringur og mikill Þórsari. Því telja þeir það eðlilegt mál að hann dæmi leiki hjá Dalvík/Reyni en hann dæmi ekki leiki hjá Þór Akureyri.

„Það er sjálfsögð krafa að dómarar dæmi ekki leiki hjá þeim félögum sem þeir starfa fyrir eða eru sannarlega tengdir. Það að dómari eigi 38. mínútna knattspyrnuferill hjá liði utan heimabæjar hans og það fyrir 14 árum getur ekki eitt og sér valdið því að dómari sé óhæfur til að dæma hjá viðkomandi liði," segir í yfirlýsingu frá Knattspyrnudómarafélagi Norðurlands.

Ástríðumenn, sem fjalla um 2. og 3. deild karla, vilja koma eftirfarandi á framfæri í kjölfarið á umræðu um þetta mál:

Yfirlýsing Ástríðunnar
Í síðasta þætti var rætt um að Birgir Þór Þrastarson hefði dæmt tvo leiki í röð hjá Dalvík/Reyni í 3. deild. Þar var sagt að Birgir væri Dalvíkingur og héldi með Dalvík. Það er rangt. Birgir er Akureyringur og er grjótharður Þórsari. Munur er á skoðunum og staðreyndum. Rétt skal vera rétt og í þessari umræðu fórum við ekki rétt með staðreyndir.

Sama dag og þátturinn kom út var okkur bent á þetta. Í kjölfarið höfðum við samband við Birgi og báðum hann afsökunar. Enn fremur sögðumst við myndu leiðrétta þetta í næsta þætti.

Nú hefur þetta verið til umfjöllunar í fréttum og því teljum við rétt að gefa út þessa yfirlýsingu þar sem við biðjumst afsökunar á að hafa farið með rangt mál í umfjöllun okkar.

Ástríðan.

Fréttin var uppfærð 21:11.
Ástríðan - 20. umferð - Dalvíkingur dæmir hjá Dalvík og Þróttur í Lengjudeildina
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner