Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   lau 09. júlí 2016 12:05
Magnús Þór Jónsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Höldum ævintýrinu áfram
Magnús Þór Jónsson
Magnús Þór Jónsson
Leiðtoginn sem við öll fylgjum
Leiðtoginn sem við öll fylgjum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenskur fótbolti er sameiningartáknið
Íslenskur fótbolti er sameiningartáknið
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Sumarmótin eru vettvangur næsta afreksfólks sem vert er að mæta á
Sumarmótin eru vettvangur næsta afreksfólks sem vert er að mæta á
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Ekki stúkan í París en frábær staður til að horfa á fótbolta
Ekki stúkan í París en frábær staður til að horfa á fótbolta
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í dag eru liðnir 5 dagar síðan "Strákarnir okkar" lentu á skerinu okkar góða og keyrðu í opnum strætó niður á Arnarhól þar sem þeim var fagnað af tugum þúsunda Íslendinga sem þökkuðu þeim á faglegan hátt fyrir skemmtunina sem þeir veittu okkur samlöndum sínum í Frakklandi.

Að sjálfsögðu vorum við öll og erum rífandi stolt af frammistöðu liðsins sem hefur varpað nýju ljósi á íslenska knattspyrnu og í raun allt okkar samfélag.  Eins og Heimir lýsti svo réttilega þá hefur árangurinn breytt ásjónu íþróttarinnar á ÍSlandi og í því felast bæði tækifæri og ákveðnar ógnir.

Það er auðvitað vert að skoða - en það langar mig ekki að gera núna.

Mig langar meira til að skora á okkur öll að halda ævintýrinu áfram!

Mér auðnaðist því miður ekki það að komast til Frakklands og upplifa gleðina þar á annan hátt en í gegnum samfélagsmiðla og fréttir af vinum mínum.  Ég efa það ekki að upplifunin hefur verið mögnuð, enda náð að fara nokkuð oft á nokkuð stóra leiki erlendis og þ.á.m. með íslenska landsliðinu.  Stærsti viðburðurinn á því sviði fyrir mig var einmitt í París þegar ég sá frábært íslenskt landslið tapa naumlega fyrir ríkjandi heimsmeisturum 3-2 ásamt stórum Íslendingahópi.

Við vorum vissulega ekki búin að búa til þau mögnuðu stuðningslög sem nú eru en sungum þjóðsönginn nokkuð oft og reyndum að staðfæra stuðningslög enska fótboltaliðsins Brentford sem átti marga fulltrúa á leiknum.  Stoltið algert.

Ég gladdist innilega að fylgjast með samfélagsmiðlunum og sjá allan þann fjölda Íslendinga sem tók það skref að eyða tíma sínum og peningum að bakka upp strákana okkar.  Fullt af fólki sem hefur fylgst lengi með íslenskum fótbolta mætti...en það var líka í hundraða- eða þúsundatali fólkið sem var líklega að sjá sinn fyrsta fótboltaleik í raunheimum.  Ég allavega veit um tugi slíkra einstaklinga.

Þeir upplifðu allir þann galdur sem fylgir því að fara á fótboltaleiki.  Voru svo undrandi að hitta allt þetta fólk, talað var um að þetta væri "eins og ættarmót"...eða "svona re-union dæmi".  Hló og gladdist með öðrum.

Það er einmitt kjarni þess galdurs sem fylgir því að mæta á knattspyrnuleiki.  Ekki bara í París, Nice eða Marseille.  Það að mæta á völlinn snýst ekki bara um það að horfa á 22 einstaklinga eltast við fótbolta.  Það er aldrei á vísan að róa hver útkoman verður í íþróttakappleiknum, maður getur upplifað stóra sigra eða slæm töp og allt þar á milli.

Alltaf getur maður þó gengið að því vísu að þeim tíma sem maður ver í leikinn þá er maður í vinahópi og nýtur þeirra samvista.  Auk þess sem að með nærveru okkar þá erum við að styrkja íþróttafólkið okkar.  Ekki bara með þeim peningi sem við eyðum í aðgöngumiðann, kaffibollann eða pizzasneiðina heldur skapar nærvera okkar leiknum enn meiri umgjörð og eykur líkur á því að gæði hans verði meiri.  Við sem höfum spilað fyrir annars vegar fullum velli eða tómum þekkjum vel muninn á því.

Nú þegar heim er komið frá ævintýralandinu Frakklandi þá er íslenskt hásumar í gangi.  Það býður upp á mikla möguleika á því að láta nú ekki staðar numið við Fan-zone borganna sem áður eru nefndar hér.

Á meðan leikirnir fóru fram í Frakklandi auðnaðist mér sú gæfa að fara á marga fótboltaleiki heima á Íslandi.  Gæða mér á góðum hamborgara og gosi á Pepsideildarleikjum beggja kynja og kaffi, nammi, bakkelsi ef mér leist ekki á pizzurnar.  Ég hef líka fengið að dæma leiki í neðri deildunum, var t.d. á afskaplega skemmtilegum leik í Hveragerði þar sem heimamenn léku við Álftnesinga í vel spiluðum leik við frábærar aðstæður í góðu veðri. Daginn áður drakk ég afskaplega góðan kaffibolla og spjallaði við fótboltafólk í Mosfellsbæ á leik í 2.deild karla.

Mætti á N1- og Íslandsbankamót á Akureyri þar sem þúsundir ungra iðkenda voru í aðalhlutverki með fullt af áhorfendum sem lifðu sig inní hlutina.

Allt lítil ævintýri...og á grunni þessara litlu ævintýra er það risavaxna í Frakklandi byggt og það næsta sem verður í Hollandi næsta sumar þegar stelpurnar okkar eiga sviðið í þeirra ævintýraheimi.

Ég skora á okkur öll að nota okkur það tækifæri sem við eigum að styrkja umgjörð íslenskrar knattspyrnu á öllum sviðum og nota þetta frábæra afrek sem strákarnir unnu til að styðja í verki þá undirbyggingu sem þessu öllu hefur skilað.

Ég veit að það er ekki Fan-zone á íslenskum völlum með áfengt öl í boði.  En það er ekki galdurinn, hamborgari og kók getur hiklaust leyst það af.  

Galdurinn felst í að lifa sig inní íþróttina sem var til sýnis í Frakklandi og upplifa gleði eða vonbrigði með samherjum okkar, vitandi það að stuðningurinn sem við sýnum með að mæta á leiki á Íslandi, í öllum deildum og flokkum hjá báðum kynjum er líklegt til að auka á líkur þess að ævintýrið sem var í Frakklandi eða það sem verður í Hollandi næsta sumar verði reglubundnir viðburðir í íslensku íþróttalífi og við getum upplifað þau áfram um alla framtíð.

Áfram íslenskur fótbolti!!!
Athugasemdir
banner
banner