mið 10. maí 2023 15:00
Hafliði Breiðfjörð
Gústi Gylfa: Vildi fá tækifæri til að snúa genginu við
Ágúst Þór Gylfason er hættur þjálfun Stjörnunnar. Jökull Elísabetarson aðstoðarmaður hans tekur við.
Ágúst Þór Gylfason er hættur þjálfun Stjörnunnar. Jökull Elísabetarson aðstoðarmaður hans tekur við.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Ég vildi fá tækifæri til að sýna að ég sé góður þjálfari og geti snúið genginu við þegar illa gengur. Mér finnst frábær tími núna til að snúa þessu við og ég óska félaginu velfarnaðar í því að gera það.''
,,Ég vildi fá tækifæri til að sýna að ég sé góður þjálfari og geti snúið genginu við þegar illa gengur. Mér finnst frábær tími núna til að snúa þessu við og ég óska félaginu velfarnaðar í því að gera það.''
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég er auðvitað svekktur en fótboltinn snýst um árangur.''
„Ég er auðvitað svekktur en fótboltinn snýst um árangur.''
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Með þessum breytingum vona ég að leikmenn taki ábyrgðina og snúi þessu við.''
,,Með þessum breytingum vona ég að leikmenn taki ábyrgðina og snúi þessu við.''
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Ég hef mikla trú á Jökli og okkar samstarf hefur verið mjög gott. Hann er mikill fótboltahugsuður og góður í öllum þáttum fótboltans.''
,,Ég hef mikla trú á Jökli og okkar samstarf hefur verið mjög gott. Hann er mikill fótboltahugsuður og góður í öllum þáttum fótboltans.''
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

„Ég er auðvitað svekktur. Ég var búinn að nefna að ég vildi vera áfram með liðið og taka þá ábyrgð að snúa genginu við," sagði Ágúst Þór Gylfason við Fótbolta.net en honum var í dag sagt upp sem þjálfara Stjörnunnar eftir erfitt gengi í upphafi tímabilsins.

Sjá einnig: Ágúst látinn fara frá Stjörnunni (Staðfest) - Jökull tekur við


Eftir fyrstu sex umferðirnar er Stjarnan í fallsæti með aðeins þrjú stig.  Liðið vann HK en tapaði hinum fimm leikjunum, gegn Víkingi FH, Breiðabliki, Val og Fram.

„Ég vildi fá tækifæri til að sýna að ég sé góður þjálfari og geti snúið genginu við þegar illa gengur. Mér finnst frábær tími núna til að snúa þessu við og ég óska félaginu velfarnaðar í því að gera það. Bæði nýja þjálfaranum, leikmönnum, stuðningsmönnum og öllum. Það er mikið tækifæri núna til að snúa þessu við, fara áfram í bikar og fá sigra í næstu 2 -3 leikjum," hélt Ágúst áfram.

Ertu ósáttur við þessa ákvörðun félagsins?
„Ég er auðvitað svekktur en fótboltinn snýst um árangur. Við erum búnir að vinna að ákveðinni vegferð að fullum huga og það hefur gengið mjög vel. Ef árangurinn fylgir ekki þá þarf einhver að víkja og taka ábyrgð og í þessu tilfelli er það ég sem geri það að þeirra mati."

„Þetta lið er vel mannað af frábærum ungum leikmönnum, þetta er góð blanda en þó hafa meiðsli verið að hjá okkur hjá lykilleikmönnum í gegnum tímabilið. Sóknarmennirnir okkar Emil Atlason og Joey Gibss sem við höfum klárlega saknað koma inn á næstu dögum og verða vonandi með í næsta leik, það hefur verið mikill söknuður af þeim."

„Haraldur Björnsson sem var fyrirliðinn okkar í fyrra hefur verið að glíma við meiðsli og er stór póstur í félaginu. Það má nefna fleiri leikmenn, Hilmar Árni er að koma til baka og hefur sýnt jákvæða takta, Andri Adolphs og Þórarinn Ingi Valdimarsson hafa líka verið meiddir. Það eru margir að koma til baka og það er fúlt fyrir mig að fá ekki að taka þátt í því þegar það er stígandi í öllu og tækifæri til að snúa stöðunni við."

Er eitthvað sem þú hefðir viljað gera öðruvísi?
Þegar ég horfi til baka þarf ég auðvitað að skoða það og það eru allskonar hlutir sem ég hefði viljað gera betur. Á svona tímapunkti gagnrýnir maður sjálfan sig svolítið með hvað hefði þurft að gera. Ég vona að félagið muni leysa þá hluti sem hefði mátt gera betur. Ég geng stoltur frá borði að öllu leiti fyrir utan það sem er mikilvægast og er árangurinn."

„Ég er mjög ánægður með þær framfarir og það skref sem félagið hefur tekið. Þá sérstaklega innan leikmannahópsins og að ungu leikmennirnir hafa stigið risaskref og hafa fengið mjög stór hlutverk í félaginu. Ég reikna með því að það muni halda áfram. Margir af þessum strákum munu spila með U19 ára landsliðinu í lokakeppni EM í sumar. Vonandi 4-5, og svo eru leikmenn í U21 landsliðinu og yngri landsliðum sem hafa unnið sér sæti þar á mínum tíma og ég er virkilega stoltur af."

„Ég geng jákvæður fyrir frá borði en nú gefst tími til að slaka aðeins á. Þetta er búið að vera erfitt að ná ekki árangri og ég treysti á að félagið muni rísa áfram, skíni Stjarnan eins og menn segja."

Þú sást alveg leið út úr þessum ógöngum?
„Við höfum verið að vinna í að bæta ýmsa þætti okkar leiks, það hefur ekki gengið alveg nógu vel en þegar þessir leikmenn eru að koma til baka munu þeir hafa mikil áhrif. Með þessum breytingum vona ég að leikmenn taki ábyrgðina og snúi þessu við."

Hefurðu trú á að Jökull I. Elísabetarson sem var aðstoðarmaður þinn og verður nú aðalþjálfari nái árangri með liðið?
Já, ég hef mikla trú á Jökli og okkar samstarf hefur verið mjög gott. Hann er mikill fótboltahugsuður og góður í öllum þáttum fótboltans. Hann hefur ekki tekið við svona stóru verkefni áður en ég óska honum góðs gengis sem og þjálfarateyminu sem ég fékk til félagsins á sínum tíma, Jökli og Þór Sigurðssyni styrktarþjálfara."

„Ég skóp þetta teymi ásamt Rajko Stanisic markmannsþjálfara sem var hérna fyrir. Það er algjör kóngur sem ég mun sakna líka. Stjórn Stjörnunnar er að gefa þjálfarateyminu sem ég skóp tækifærið og nú þurfa þeir að gera þetta án mín. Ég óska þeim góðs gengis og ég hef mikla trú á að þeir snúi þessu við."

Finnst þér ekki skrítið að þú þurfir einn að sæta ábyrgð?
„Einhver þarf að taka ábyrgðina og ég veit að í svona starfi er yfirleitt einn aðalþjálfari. Ég er búinn að vera aðalþjálfari Stjörnunnar þetta eina og hálfa tímabil. Það þurfti mögulega að gera breytingar til að snúa þessu við. Ákvörðun stjórnarinnar er að ég eigi að taka ábyrgðina og ég tek hana bara. Svona er fótboltastarfið og svo mögulega opnast eitthvað annað."

Hvað tekur þá við hjá þér?
Eins og þú veist er ég sennilega eini þjálfarinn sem er í mörgum störfum. Ég er búinn að starfa í 25 ár hjá Origo og myndi frekar spyrja hvað verður um Bose mótið. Ég mun vinna áfram í Origo og verja meiri tíma með fjölskyldunni sem er mikilvægt líka. Kannski spila ég aðeins meira golf en ég hef gert en það eru ýmis tækifæri hjá mér. Ég fæ meiri tíma til að sinna sjálfum mér og mínu fólki."

Mér heyrist samt á þér að þú sért enn á markaðnum og tilbúinn að taka öðru starfi þegar það býðst næst?
,,Mín hugmyndafræði í fótbolta og reynsla sem þjálfari og leikmaður mun ekki strokast út. Þegar einar dyr lokast opnast aðrar með ný tækifæri. En nú þarf ég að melta þeetta því það er ekki auðvelt að fá svona skilaboð og þurfa að yfirgefa fólk sem ég hef umgengnst, leikmannahópinn og annað fólk hjá félaginu á 15 sekúndum. Það er mikið af tilfinningum og erfitt að horfa upp á þetta en ég mun halda góðu sambandi við team Stjörnuna. Það þýðir ekkert að væla og skæla en við höldum áfram og sjáum hver næstu skref verða í fótboltanum."


Athugasemdir
banner
banner
banner