Íslands- og bikarmeistarinn Lára Kristín er búin að gefa út bók um baráttuna við matarfíkn
„Mig langaði í grunninn að skrifa þessa bók til að auka skilning samfélagsins á matarfíkn. Skrifin fóru svo reyndar í alls konar áttir sem ég bjóst ekki við áður en ég ákvað upprunalega að byrja skrifa um þetta málefni," segir Lára Kristín Pedersen, leikmaður Íslandsmeistara Vals.
Hún gaf nýverið út bókina 'Veran í moldinni: Hugarheimur matarfíkils í leit að bata' þar sem hún fjallar meðal annars um baráttu við matarfíkn sem hún hefur glímt við um árabil.
Hún gaf nýverið út bókina 'Veran í moldinni: Hugarheimur matarfíkils í leit að bata' þar sem hún fjallar meðal annars um baráttu við matarfíkn sem hún hefur glímt við um árabil.
„Það sem ég vil koma áleiðis með henni er fyrst og fremst aukinn skilningur á fíknisjúkdómum - og þannig vonandi meira umburðarlyndi gagnvart þeim sem glíma við sjúkdóminn - en eins og ég segi þá fóru skrifin líka í alls konar áttir og ég snerti á öðrum málefnum sem ég hef sterkar skoðanir á," segir Lára sem opnaði sig fyrst um sjúkdóminn í viðtali við Fótbolta.net árið 2019.

Af vefsíðu bókarinnar.
Hægt er að kaupa bókina með með því að fara inn á vefsíðuna veranimoldinni.is eða með því að smella hérna. Einnig er hægt að nálgast hana í öllum helstu bókaverslunum landsins.
Hér fyrir neðan má lesa einn kafla úr bókinni sem er svo sannarlega virkilega áhugaverð.
RÚSSNESK RÚLLETTA
Staður: Moskva, Rússlandi
Stund: Október 2017
Ástand: Ég er ekki alkóhólisti
Við erum komnar í 16-liða úrslit! Nú skal dottið í það. Hrunið í það. Djöfull er gaman í þessari íþrótt. Djöfull er gaman að vinna. Djöfull erum við flottar. Á mér annars ekki að líða þannig? Sigur í einhverju boltasparki gæti mér reyndar ekki þótt ómerkilegri akkúrat núna. Ég læt þó annað í ljós hér við matarborðið og eftir leik. Ég hoppaði af kæti með stelpunum inni í klefa áðan. Og í rútunni heim á hótelið. Nú sitjum við saman í matsalnum, borðum kvöldmat og skolum öllu niður með rússnesku öli. Kannski við færum okkur yfir í eitthvað sterkara þegar líður á kvöldið. Þessu skal fagnað almennilega. Við erum komnar í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu! Við verðum ekki mikið flottari en það, er það nokkuð? Mér á eflaust að finnast þetta magnað afrek en í sannleika sagt er ég bara fegin að við unnum svo að ég hafi afsökun til að djamma almennilega í kvöld. Íþróttafólk á aldrei eins mikið skilið að djamma og þegar það vinnur. Þá eigum við heiminn skilið og allt sem í honum er. Helst tæki ég matinn minn í sigurlaun en þar sem ég er að vinna í að taka hann út úr lífi mínu þá get ég notað áfengið, úlfinn í sauðagærunni.
Einhverjar af stelpunum vita að ég er hætt að borða hveiti, sykur, sterkju og fleiri matvæli sökum fíknar en ég er enginn alkóhólisti svo ég get drukkið hér óhult fyrir framan þær án vandræða. Alkóhól er reyndar ekkert annað en brenndur sykur eða gerjuð sterkja svo ég gæti alveg eins maulað súkkulaðistöng en þær eru ekkert að pæla í því. Þær eru að pæla í hvað þær eru flottar. Mér hefur aldrei geðjast mikið að áfengi og ég hætti því að drekka fyrir nokkrum árum. Mér fannst vissulega gaman að lyfta mér upp með vinum með aðstoð fljótandi vímugjafa en á einhverjum tímapunkti varð löngunin í árangur í íþróttum sterkari en löngunin í taugaeitur. Það truflaði mig því lítið þegar ég byrjaði fyrst í meðferðinni og skilgreindur rammi fráhalds innihélt ekkert áfengi. Í dag finnst mér það þó fáránlegt. Ég hef aldrei misst tökin á drykkju og ég hef aldrei setið ein heima og drukkið til að deyfa mig. Ég á ekki við vandamál að stríða gagnvart áfengi og ég má því gera það sem ég vil við það. Ég nefndi það á meðferðarfundi að ég ætlaði að fylgja þessum ramma áfram með matinn en ég réði mér enn sjálf og hefði því tekið ákvörðun um að drekka þegar mér þætti tilefni til. Esther mælti ekki með því en sagði að vissulega réði ég mér sjálf og þyrfti að fá að reka mig á sjálf. Reka mig á hvað? Ég er ekki alkóhólisti. Ég ræð við þetta og ég ræð hvað ég ákveð að sötra. Í kvöld skal það vera Baltika 3 Classic. Og eitthvað sterkara.
Við færum okkur inn í fundarsal á hótelinu og dönsum fram á rússarauða nótt. Um fjögurleytið förum við að tínast ein af annarri inn á herbergi. Ég er í herbergi með Kristrúnu. Við höfum áðurverið saman í herbergi og ég veit hve girnilegt nesti hún tekur alltaf með sér í svona ferðir. Ég er nokkuð vel við skál en dómgreindin er alveg á sínum stað. Ja, eða hún er ekki sködduð vegna áfengisvímu allavega. Sjúkleikinn sem hellist yfir mig þegar matur er annars vegar er hins vegar mættur í öllu sínu veldi. Ég verð að komast í eitthvað og það strax. Ég veit að ég mun klára allt sem Kristrún er með ef ég fer inn á herbergi núna svo ég fer niður í eldhús hótelsins. Da! Þarna erum við. Stórt fjall af litlum skjannahvítum rúnstykkjum stendur þarna á miðju borðinu og bíður eftir að láta borða sig. Hér verð ég fram að sólarupprás.
Ég er ekki lengur en rúman hálftíma að koma þeim öllum niður en þarf að fá eitthvað meira – strax. Morgunmaturinn byrjar eftir tæpa tvo tíma og ég get ekki beðið svo lengi. Ég fer því upp á herbergi og fæ mér nokkra heimabakaða hafraklatta hjá Kristrúnu. Við erum hvort eð er á heimleið, hún hlýtur að verða bara fegin að sleppa við að taka þá til baka aftur. Kristrún er líklega síðasta manneskjan í þessu liði sem mig langar að stela frá en svona er þetta. Lítið hægt að gera í því núna. Ég legg mig í rúman klukkutíma og fer svo niður í matsal, tilbúin í þessa morgunverðarveislu. Allt sætabrauðið sem ég hef séð hérna á hótelinu síðustu daga er nú loksins mitt; croissant, rúnstykki, snúðar og pönnukökur. Ég ætti að hafa allavega klukku- tíma til að stafla þessu í kokið á mér áður en stelpurnar koma niður í morgunmat. Það er brottför út á flugvöll snemma svo þessi tími er naumur en ég læt hann duga.
Mig langar ekki neitt að vera að gera þetta. Mig langar ekki neitt í þennan mat en ég bara verð að fá hann. Ég verð að koma honum niður. Örvænting mín er algjör og ég trúi ekki að ég sé að leyfa þessu að gerast enn einu sinni. Getur sem sagt ekkert haldið mér frá þessum viðbjóði, ekki einu sinni lærður meðferðaraðili við matarfíkn? KGB, ekki gætuð þið læst mig inni? Það er ekkert sem getur haldið mér frá matnum á þessum tímapunkti nema kannski þið.
Athugasemdir