Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   þri 10. nóvember 2020 19:45
Aksentije Milisic
Rúrik leggur skóna á hilluna (Staðfest) - Ætlar að leika í íslenskri bíómynd
Rúrik í leik á HM.
Rúrik í leik á HM.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hinn 32 ára gamli Rúrik Gíslason er hættur að spila knattspyrnu en þessu sagði hann frá í viðtali í Íslandi í dag.

Rúrik sagði að það sé svolítið langt síðan hann tók þessa ákvörðun en á sama tíma útilokaði hann ekki að skórnir gætu farið af hillunni síðar. Eins og staðan er núna er ekkert fram undan í boltanum og því hafi hann tekið þessa stóru ákvörðun.

Rúrik spilaði síðasta með Sandhausen í B-deildinni í Þýskalandi en þar á undan lék hann með Nurnberg. Hann á að baki 53 leiki fyrir landslið Íslands og skoraði hann þrjú mörk í þeim leikjum.

Hann var ekki í landsliðhópnum sem fór á EM 2016 en hann var mættur í hópinn sem fór á HM í Rússlandi og þar spilaði hann tvo leiki og vakti einnig heimsathygli. Instagram reikningurinn hans fór á hliðina á meðan það mót gekk yfir.

Rúrik, sem er uppalinn hjá HK, á leiki að baki í sterkustu deild heims, Meistaradeild Evrópu og þá varð hann deildar-og bikarmeistari með FCK í Danmörku.

„Það eru nokkur spennandi verkefni framundan sem ég hef ákveðið að segja já við. Það er sjónvarpsverkefni í Þýskalandi og svo hef ég ákveðið að prófa að leika í íslenskri bíómynd," sagði Rúrik þegar Júlíana Þóra Hálfdánardóttir spurði hann hvað sé framundan.

Þá var Rúrik einnig spurður út í tónlist og hann sagði frá því að það sé verkefni með Dr. Victor á döfinni. Nóg af spennandi verkefnum framundan hjá Rúrik sem hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna, í bili allavega.
Athugasemdir
banner
banner
banner