Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fim 10. desember 2020 15:15
Magnús Már Einarsson
Arnór Smára: Verður tilfinningaþrungið fyrir mig
Arnór Smárason.
Arnór Smárason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnór Smárason samdi í gær við Val en hann er á heimleið eftir 17 ár í atvinnumennsku erlendis. Hinn 32 ára gamli Arnór lék í yngri flokkum ÍA áður en hann fór ungur til Herenveen í Hollandi. Arnór mun næsta sumar spila í fyrsta skipti í efsu deild á Íslandi.

„Ég er rosalega spenntur fyrir því. Ég er búinn að vera 17 ár úti og það hefur verið langur og flottur tími. Stefnan hefur alltaf verið að spila í efstu deild á Íslandi á einhverjum tímapunkti og núna er flottur tímapunktur. Ég er rosalega gíraður," sagði Arnór.

VIll ekki mæta heim of seint
Arnór er í dag á mála hjá Lilleström í Noregi en liðið endurheimti sæti sitt í norsku úrvalsdeildinni fyrr í vikunni. Af hverju ákveður Arnór að yfirgefa félagið núna? „Það eru margir punktar á bakvið það. Ég er búinn að glíma við meiðsli í ár og hef ekkert spilað."

„Ég er búinn að vera í 17 ár úti og langar að koma heim á besta aldri. Ég vil ekki mæta heim of seint þar sem maður hefur minna fram að færa. Ég vil koma núna meðan maður er ennþá mjög ferskur og geta látið almennilega til sín taka í íslenska boltanum. Þegar Valur heyrði í mér þá var ég strax rosalega spenntur. Mér líst vel á það sem er í gangi á Hlíðarenda. Leikmannahópurinn, þjálfararnir, framkvæmdastjórinn, umgjörðin og allt batteríð. Mér leist vel á þetta allt."


Arnór var fyrr á árinu orðaður við uppeldisfélag sitt ÍA og fleiri félög í Pepsi Max-deildinni sýndu honum áhuga. „Það voru nokkur lið sem heyrðu í mér en á endanum er þetta mín ákvörðun. Ég ákvað á þessum tímapunkti að Valur væri rétta skrefið fyrir mig."

„Ég hef unnið nokkra bikartitla á ferlinum. Í umhverfinu hjá Val snýst þetta mikið um að vera í baráttu um titla á öllum vígstöðum. Það er Meistaradeild og margt sem spilaði inn í þá ákvörðun að velja Val. Auðvitað verður gaman að spila á móti ÍA og öllum liðunum í deildinni þar sem ég hef aldrei gert það áður."


Kveðjustund á sunnudaginn
Á ferli sínum erlendis hefur Arnór spilað í Hollandi, Svíþjóð, Danmörku, Rússlandi og Noregi.

„Ég er mjög ánægður með þau ár. Þetta hefur verið rússíbani. Það hafa verið nokkrir háir og flottir toppar og svo nokkrir lágpunktar líka. Ég er í heildina litið mjög sáttur við ferilinn úti og sáttur með að hafa alltaf komið til baka eftir erfið tímabil. Það er það sem ég ætla að stefna á að gera núna líka. Eftir þetta ár þar sem ég var mikið meiddur," sagði Arnór en hann vonast til að kveðja Lilleström með því að spila gegn Grorud í lokaumferðinni í norsku B-deildinni á sunnudaginn.

„Ég er búinn að æfa á fullu með liðinu síðasta mánuðinn. Stefnan er að vera í hóp og fá jafnvel einhverjar mínútur í kveðjuleik á sunnudaginn. Það er æðislegt að geta kvatt Lilleström með því að hafa farið upp aftur. Það verður vonandi flott kveðjustund á sunnudaginn. Það verður líka tilfinningaþrungið fyrir mig eftir svona mörg ár úti. Ég fæ nánast kökk í hálsinn þegar ég tala um það en ég ætla bara að reyna að njóta," sagði Arnór að lokum við Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner