Chelsea leggur aukna áherslu á að fá Mainoo - Milan vill Mitchell - Phillips gæti snúið aftur til Leeds
   þri 11. mars 2025 13:37
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Rúnar Már nýr fyrirliði ÍA
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rúnar Már Sigurjónsson er nýr fyrirliði ÍA en hann tekur við fyrirliðabandinu af Arnóri Smárasyni sem lagði skóna á hilluna í lok síðasta tímabils.

Rúnar Már er 34 ára miðjumaður sem gekk í raðir ÍA fyrir síðasta tímabil eftir rúman áratug í atvinnumennsku. Hann á að baki 32 landsleiki.

„Rúnar Már er okkar reyndasti leikmaður. Hann hefur gífurlega mikla leikreynslu bæði hérlendis og erlendis sem atvinnumaður. Auk þess er hann með mikla reynslu af því að spila landsleiki. Við erum með marga unga leikmenn sem eru að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki sem hann mun miðla sinni reynslu til ásamt auðvitað hópnum öllum. Rúnar Már er öflugur leiðtogi sem lætur verkin tala og leiðir með góðu fordæmi innan vallar," segir Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, við Fótbolta.net.

Markakóngur síðasta tímabils, Viktor Jónsson, er varafyrirliði ÍA.

„Hann hefur haft það hlutverk hjá okkur áður og leyst það frábærlega. Við erum mjög heppnir hjá ÍA að hafa öflugan hóp af leiðtogum á öllum aldri sem láta til sín taka og hjálpa til við að skapa öfluga liðsheild, samheldni og sterkar vinnureglur (e. work ethic) sem gerir gott lið betra," segir Jón Þór.

Viktor skoraði átján mörk í Bestu deildinni á síðasta tímabili. ÍA er sem stendur í æfingaferð á Spáni. Liðið mætir Fram á útivelli í fyrstu umferð Íslandsmótsins 2025 þann 6. apríl.
Athugasemdir
banner
banner
banner