Amorim gæti stigið frá borði ef slæmt gengi Man Utd heldur áfram - Bayern ætlar ekki að bjóða Sane hærri samning
   sun 11. maí 2025 16:58
Brynjar Ingi Erluson
Guðjohnsen-bræður nýttu tækifærið - Stefán Ingi skoraði þriðja deildarleikinn í röð
Stuðningsmenn Malmö voru ánægðir með frammistöðu Daníels
Stuðningsmenn Malmö voru ánægðir með frammistöðu Daníels
Mynd: Malmö FF
Stefán Ingi er á góðu róli með Sandefjord
Stefán Ingi er á góðu róli með Sandefjord
Mynd: Sandefjord
Sveinn Aron er kominn með sex mörk í deild- og bikar á tímabilinu
Sveinn Aron er kominn með sex mörk í deild- og bikar á tímabilinu
Mynd: Guðmundur Svansson
Hinn ungi og efnilegi Daníel Tristan Guðjohnsen byrjaði sinn fyrsta deildarleik með Malmö á tímabilinu og tókst að nýta tækifærið í 4-1 sigri liðsins á Degefors í sænsku úrvalsdeildinni í dag. Bróðir hans, Sveinn Aron, var þá á skotskónum með Sarpsborg í Íslendingaslag í Noregi.

Daníel Tristan er 19 ára gamall sóknarmaður sem kom til Malmö frá Real Madrid fyrir þremur árum.

Hann fékk loks tækifæri í byrjunarliðinu í dag og nýtti það vel með því að leggja upp annað mark liðsins. Daníel fékk mikið lof fyrir frammistöðu sína í leiknum á samfélagsmiðlum og flestir á því að hann hafi spilað sig inn í byrjunarliðið fyrir næstu leiki.

Malmö er í 5. sæti sænsku deildarinnar með 14 stig.

Ari SIgurpálsson byrjaði hjá Elfsborg sem vann 1-0 sigur á Öster en Júlíus Magnússon var fjarri góðu gamni. Elfsborg er í 4. sæti með 16 stig.

Mikael Neville Anderson lagði upp eina mark AGF í 3-1 tapi liðsins gegn Randers í dönsku úrvalsdeildinni.

AGF er í neðsta sæti meistarariðilsins með 40 stig.

Brynjólfur Andersen Willumsson kom inn af bekknum í síðari hálfleik hjá Groningen sem tapaði fyrir AZ Alkmaar, 3-0, í hollensku úrvalsdeildinni. Groningen er í 11. sæti með 38 stig.

Stefán Ingi skoraði þriðja leikinn í röð og Sveinn Aron með mark af bekknum

Blikinn Stefán Ingi Sigurðarson er á góðu róli með Sandefjord í Noregi.

Hann skoraði þriðja leikinn í röð í 2-1 sigri liðsins á Vålerenga í úrvalsdeildinni og er nú kominn með fimm mörk í deildinni.

Sandefjord er í 5. sæti með 12 stig.

Sveinn Aron Guðjohnsen kom inn af bekknum hjá Sarpsborg og skoraði þriðja markið er það vann Íslendingalið Ham/Kam, 4-0. Brynjar Ingi Bjarnason byrjaði hjá Ham/Kam og kom þá VIðar Ari Jónsson inn í síðari hálfleik.

Sveinn hefur ekki verið fastamaður í liðinu í deildinni. Hann er með fjögur mörk í bikarnum og var núna að skora annað deildarmark sitt, en þjálfarinn getur varla haldið honum út úr byrjunarliðinu mikið lengur miðað við formið sem hann er í.

Sarpsborg er í 6. sæti með 11 stig en Ham/Kam í 14. sæti með 4 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner