Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 11. október 2021 17:10
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hefur heyrt að Guðlaugur Victor sé hættur með landsliðinu
Icelandair
Guðlaugur Victor Pálsson.
Guðlaugur Victor Pálsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Er hann búinn að spila sinn síðasta landsleik?
Er hann búinn að spila sinn síðasta landsleik?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Albert Brynjar Ingason, sóknarmaður Fylkis, segist hafa heyrt þau tíðindi að miðjumaðurinn Guðlaugur Victor Pálsson sé hættur með íslenska landsliðinu.

Það var sagt frá því í gær á miðlum KSÍ að miðjumaðurinn hefði yfirgefið landsliðshópinn og haldið aftur til félagsliðs síns, Schalke 04 í Þýskalandi.

Guðlaugur Victor hefur byrjað á miðjunni í undanförnum leikjum en frammistaða hans á þessu ári hefur ekki verið upp á marga fiska. Hann var mjög öflugur þegar hann kom inn í liðið undir stjórn Erik Hamren.

Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, sagði frá því á fréttamannafundi að það hefði verið ákvörðun leikmannsins að fara og það þyrfti að spyrja hann af hverju svo væri. „Guðlaugur Victor dróg sig út úr hópnum og taldi sig þurfa að fara til síns félags. Þá er hann ekki hér," sagði Arnar.

Rætt var um þessar fréttir í hlaðvarpinu Dr Football í dag og þá sagði Albert Brynjar:

„Maður hefur heyrt að hann sé hættur með landsliðinu. Maður hefur heyrt að hann hafi látið menn vita í kring, aðallega leikmenn, að hann myndi spila þennan leik (gegn Armeníu) og hætta svo," sagði Albert.

Hjörvar Hafliðason, sparkspekingur, var sannfærður um að Guðlaugur hefði eingöngu dregið sig úr hópnum til að einbeita sér að komandi leikjum með Schalke, sérstaklega í ljósi þess að hann hefur verið meiddur upp á síðkastið. Hörður Snævar Jónsson, ritstjóri 433.is, sagði að þá hefði verið einfalt mál að útskýra það, ekki hefði þurft að flækja það svona mikið.

„Það hefði verið svo einfalt að útskýra það mál, í staðinn fyrir að skilja eftir spurningar," sagði Hörður.

„Hann þarf þá ekki að fara úr hópnum. Hann getur talað við þjálfarann um að fá hvíld og að vera á bekknum; klára verkefnið þannig og fara svo heim," sagði Albert.

Guðlaugur Victor er bara þrítugur; hann er á besta aldri fyrir fótboltamann.

Ísland mætir Liechtenstein í kvöld í undankeppni HM. Það er ekki mikið undir í leiknum þar sem hvorugt þessara liða er á leið á HM.



Athugasemdir
banner
banner
banner