Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 11. október 2021 17:03
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Viðar Örn er ekki fábjáni"
Icelandair
Viðar Örn
Viðar Örn
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Daníel Leó
Daníel Leó
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það vakti athygli þegar Daníel Leó Grétarsson kom inn á sem varamaður í landsleiknum gegn Armeníu á föstudag. Daníel var að spila sinn fyrsta keppnisleik en það sem vakti athygli var að Daníel var ekki í upprunalega hópnum sem tilkynntur var fyrir verkefnið heldur kom inn vegna meiðsla Jóns Guðna Fjólusonar.

Svipað átti sér stað í landsliðsverkefninu í september þegar Viðar Örn Kjartansson var kallaður inn í hópinn þegar þjálfurunum var meinað að velja Kolbein Sigþórsson. Viðar byrjaði tvo af þremur leikjum í því verkefni.

Þetta var til umræðu í útvarpsþættinum Fótbolta.net á laugardag. „Í síðasta glugga kom Viðar Örn inn eftir að hópurinn var tilkynntur og byrjar síðan fyrsta leik. Það vekur athygli þegar þú ert að velja 24 leikmenn inn í hópinn að allt í einu er maður sem kallaður er inn í hópinn inn í byrjunarliðið," sagði Elvar Geir Magnússon.

„Svo í leiknum í gær þá kemur Daníel Leó fyrstur inn af bekknum en hann var ekki í upprunalega hópnum í þessu verkefni. Hann er ekkert að spila með Blackpool og ekki í hóp hjá liðinu. Á sama tíma segir Arnar Þór Viðarsson að Rúnar Már Sigurjónsson sé ekki í hópnum af því hann er ekki nægilega góðri leikæfingu. Þetta eru smá árekstrar í ummælum landsliðsþjálfarans þar," sagði Elvar.

„Vissulega en það verður samt að gefa Arnari það að þetta er sitthvor staðan. Það vantaði miðvörð en hver annar [átti að spila]?" sagði Tómas Þór Þórðarson.

„Ari Leifsson er í upprunalega hópnum og hann kemur ekki inn á meðan sem maður sem er kallaður inn kemur inn á," sagði Elvar.

Tómas sagðist ekki hafa áttað sig á því og nefndi svo að Ari væri búinn að spila vel í Noregi. „Daníel Leó átti fínan leik þegar kom inn á," sagði Magnús Már Einarsson.

„Ég er ekki að gagnrýna hann. En ef við þurfum á honum að halda sem fyrsta varamanni af hverju er hann ekki í upprunalega hópnum?" sagði Elvar Geir.

„Landsliðsferilinn hans Viðars hefur kannski ekki náð neinum svakalegum hæðum EN hvernig þetta hefur verið síðan Arnar og Eiður tóku við þá er ekki hægt að búast við því að hann mæti með dúndrandi sjálfstraust inn á völlinn undir stjórn þessara þjálfara," sagði Maggi.

„Viðar Örn er mögulega mesti refur í kassa sem við höfum átt síðustu tíu ár. Alfreð, Kolbeinn og Jón Daði eru margfalt betri í fótbolta en Viðar Örn en þegar kemur að því, listgreininni að sparka boltanum í markið, þá eru fáir betri en Viðar. Við spilum ekki fótbolta, ekki einu sinni upp á okkar besta, sem hentar Viðari Erni. Þess vegna sárvorkenni ég honum að standa þarna fremst," sagði Tómas.

„Ef það var einhvern tímann þá var það þegar þú ert að spila gegn Armeníu og Liechtenstein. Það eru leikirnir fyrir hann. Íslenska liðið á að geta skapað sér færi þar frekar en gegn Þýskalandi eða Rúmeníu. Það sem ég er að meina er að þegar hann er ekki valinn í upprunalega hópinn þá er verið að segja honum að hann sé ekki nógu góður fyrir þann hóp en svo ertu allt í einu orðinn nógu góður. Það er erfitt fyrir hann að finna fyrir trausti, tekinn svo af velli í hálfleik í gær," sagði Maggi.

„Viðar Örn er ekki fábjáni, hann er fullmeðvitaður að traustið á hann er ekki neitt. Hann mætir bara af því að hann fyllist stolti af því að spila í bláu sem er vel gert"

„Framherjinn er líklegri til að skora ef hann veit að hann er með traust,"
sagði Maggi að lokum.

Umræðuna í heild má nálgast í spilaranum hér að neðan.
Landsliðsumræða - Tómlegur völlur og döpur úrslit
Athugasemdir
banner