Haukur Baldvinsson fyrrverandi leikmaður Breiðabliks missti stjórn á skapi sínu í leik með Augnabliki í Futsal um helgina og grýtti skónum sínum í einn þriggja dómara leiksins.
Myndband af atvikinu má sjá í spilaranum að ofan.
Augnablik mætti Hvíta Riddaranum í Futsal leik í Kórnum á laugardaginn og tapaði leiknum 6 - 2.
Atvikið átti sér stað á 17. mínútu leiksins. Haukur var ósáttur við að fá ekki aukaspyrnu á miðjum vellinum, snöggreiddist, fór úr skónum og grýtti honum af alefli í Ólaf Inga Guðmundsson aðstoðardómara sem sat þar við tölvu á ritaraborðinu.
Það varð Ólafi Inga til happs að tölvuskjár varð á milli þegar Haukur grýtti skónum svo honum varð ekki harmur af en hann er með gleraugu og má segja að hann hafi sloppið vel.
Guðmundur Ævar Guðmundsson dómari lyfti hinsvegar strax rauðu spjaldi. Ekkert kemur fram á vef KSÍ um hver refsing Hauks verður eða hvort aga- og úrskurðarnefnd verði kölluð saman til að taka á málinu.
Athugasemdir