Jose Mourinho, stjóri Tottenham Hotspur, hefur sagt að það hafi verið mistök hjá Gareth Bale að birta færslu á samskiptamiðlum þar sem hann tjáði sig um æfingu sína.
Bale leið ekki nógu vel til þess að vera í leikmannahóp Tottenham gegn Everton í FA bikarnum í vikunni og því varð hann eftir og æfði undir eftirliti þjálfara.
Eftir leikinn var Mourinho spurður út í málið og þar sagði hann að ekki væri um meiðsli að ræða. Hann sagði að Bale væri ekki á bekknum því hann hafi ekki verið ánægður með æfinguna sína deginum fyrir leikinn.
Bale birti skilaboðum á Instagram þar sem hann skrifaði að það væri góð æfing að baki í dag, sama dag og lið hans var að spila gegn Everton en þá æfði Bale einn með þjálfurum liðsins.
Mourinho hafði reynt eins og hann gat að halda vandamálum Bale innan félagsins og að ekkert færi í fjölmiðla. Nú gat hann það ekki lengur og segir hann að leikmaðurinn sé ekki meiddur.
„Síðan tímabilið byrjaði, þá hef ég reynt að halda öllu sem gerist innan félagsins, svo það skapist ekki fleiri vandamál. Núna hins vegar verð ég að tjá mig um stöðuna," sagði Mourinho á blaðamannafundi fyrir leikinn gegn Manchester City á morgun.
„Ég veit ekki hvort hann hafi skrifað þessi skilaboð eftir æfinguna hans en þetta var rangt. Honum leið illa, hann fór í myndatöku en það kom ekkert úr henni. Honum leið samt illa svo hann var ekki klár í leikinn. Ég vel hann í hópinn á morgun ef hann verður klár."
Athugasemdir