Talsverður áhugi er á landsliðsþjálfarastarfinu hjá Íslandi og hefur KSÍ fengið ágætis magn umsókna um starfið. Aðallega eru umsóknirnar að koma frá erlendum þjálfurum.
Nýtt nafn bættist í umræðuna um landsliðsþjálfarastarfið í gær en Norðmaðurinn Per Mathias Högmo var þá orðaður við starfið. Hann þjálfaði síðast í Japan en var áður landsliðsþjálfari Noregs og hefur unnið deildarmeistaratitla sem þjálfari í Noregi og Svíþjóð.
Nýtt nafn bættist í umræðuna um landsliðsþjálfarastarfið í gær en Norðmaðurinn Per Mathias Högmo var þá orðaður við starfið. Hann þjálfaði síðast í Japan en var áður landsliðsþjálfari Noregs og hefur unnið deildarmeistaratitla sem þjálfari í Noregi og Svíþjóð.
Arnar Gunnlaugsson og Freyr Alexandersson hafa hvað mest verið orðaðir við starfið en Þorvaldur Örlygsson, formaður KSÍ, segir að enn hafi ekki verið rætt við neinn þjálfara um starfið. Þessi vinna er í gangi og menn ætla að vanda til verka.
„Ég myndi segja að það gangi vel. Við erum að skoða málin mjög vel og erum að vinna í þessu. Við getum gefið okkur tíma. Við erum að vinna þetta hratt en erum samt ekki að flýta okkur; maður þarf að finna jafnvægið. Það eru komnar inn umsóknir sem við erum að skoða og velta fyrir okkur. Það eru möguleikar í stöðunni," segir Þorvaldur við Fótbolta.net.
„Við höfum ekki rætt við neina þjálfara núna. Við erum bara að skoða málin og líta í kringum okkur. Svo förum við fljótlega í það að eiga samtöl."
Mikill áhugi á starfinu
Þorvaldur segist finna fyrir miklum áhuga á starfinu og hefur KSÍ fengið umsóknir í það utan úr heimi.
„Ég myndi segja að það væri mikill áhugi á starfinu. Það eru mismunandi persónur sem sækja um. Það er fullt af mönnum að leita sér að störfum í fótboltaheiminum. Þjálfurum er að fjölga. Það er mjög jákvætt fyrir okkur," segir Þorvaldur og bætir svo við:
„Það eru aðallega erlendir þjálfarar sem eru að sækja um starfið og eru að láta vita af sér."
Er Per Mathias Högmo einn þeirra sem hefur lýst yfir áhuga á starfinu?
„Ég ætla ekki að nefna nein nöfn. Mér finnst það ekki rétt núna og ekki tímabært. Við ætlum að fara í gegnum þetta og skoða þetta vel," segir Þorvaldur.
Það er ekkert útilokað
Þorvaldur sagði það þegar Age Hareide hætti störfum að það væri ákjósanlegt að hafa Íslending í þessu starfi en það þyrfti alltaf að horfa á heildarmyndina. Hugnast Þorvaldi enn helst íslenskur þjálfari?
„Mér finnst alltaf gott að reyna að skoða möguleikana. Það er ekkert útilokað hvort það verði erlendur þjálfari eða íslenskur," segir formaðurinn.
„Við þurfum að skoða hvað hentar okkur best að þessu sinni. Við gefum okkur tíma í það."
Tveir helstu íslensku möguleikarnir - Arnar og Freyr - eru báðir í störfum. Flækir það hlutina?
„Það hafa komið upp mörg nöfn í fjölmiðlum og þar á meðal eru þjálfarar sem eru í störfum. Það er ekkert sem við höfum skoðað enn sem komið er en það þarf þá að fara sína leið," segir Þorvaldur.
Fyrsta verkefni nýs þjálfara verði í mars
Það er útlit fyrir það núna að fyrsta verkefni nýs þjálfara verði umspilsleikir gegn Kosóvó í Þjóðadeildinni í mars. Oftast á síðustu árum hefur verið janúarverkefni utan landsliðsglugga en það er ekki útlit fyrir það núna.
„Eins og staðan er í dag þá er ekkert janúarverkefni komið. Það er ekki hægt að útiloka það en eins og staðan er í dag þá er útlit fyrir að fyrsta verkefni nýs þjálfara verði í mars gegn Kosóvó," segir Þorvaldur.
„Mönnum hefur ekki fundist það henta að taka janúarverkefni núna. Í viðkomandi verkefni er oft erfitt að fá leikmenn. Knattspyrnusviðið er alltaf að skoða og velta fyrir sér hvað er best. Eins og staðan er í dag hentar þetta ekki alveg núna. En það er aldrei að vita nema eitthvað komi upp."
Fyrsti heimaleikur nýs þjálfara verður þá á Murcia á Spáni. Ísland spilar þar heimaleik sinn gegn Kosóvó þar sem framkvæmdir eru í gangi á Laugardalsvelli; verið er að leggja blendingsgras með undirhita á vellinum.
„Menn skoðuðu nokkra möguleika, í Skandinavíu og annars staðar. Þetta fór eftir því hvað var hagkvæmast og hvað hentaði best. Úr varð að við skoðum staði á Spáni, Portúgal og Skandinavíu. Það voru skoðaðar allar leiðir og niðurstaðan var sú að þetta var talinn besti staðurinn af þeim sérfræðingum sem tóku ákvörðunina. Þetta hentaði okkur best."
„Auðvitað væri best að spila á Íslandi en við töldum þetta bestu lendinguna eins og staðan væri í dag. Það gengur ljómandi vel með Laugardalsvöll. Veðrið hefur hjálpað okkur. Við erum á áætlun. Það er verið að setja hitalagnirnar í. Þetta lítur ljómandi vel út," segir Þorvaldur en fáum við nýjan þjálfara í jólagjöf?
„Maður vill klára hlutina og reyna að gera það vel. Það er vonandi að við getum fengið góða jólagjöf og gengið frá þessu fyrir jól. Ég ætla ekki að lofa neinu samt. Við ætlum að reyna að gera þetta eins vel og við mögulega getum. Tíminn er fljótur að líða og mars kemur fljótlega," sagði formaðurinn að lokum.
Athugasemdir