Frábært að sjá hann á vellinum, frábært fyrir hann að koma inn aftur og mikilvægt fyrir okkur að fá hann í hópinn
„Eðlilega kannski (tók tíma að brjóta þá niður) þeir eru með gott lið og góða leikmenn. Þeir mæta í þéttri blokk rétt fyrir framan teiginn sinn og gríðarlega erfitt að komast í gegnum blokkina. Við örlítið skerptum á hlutunum í hálfleik og strax fannst mér við sýna hvað við ætluðum okkur. Um leið og fyrsta markið kemur þá breytir það leiknum," sagði Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, eftir sigur gegn Vestra í 2. umferð Bestu deildarinnar.
Lestu um leikinn: Breiðablik 4 - 0 Vestri
„Það sem ég var líka ánægður með að markið kom ekki alveg upp úr þurru, vorum búnir að virkilega hóta því að skora í sóknunum á undan. Það var fínt að klára þann kafla með marki og geta tekið algjöra stjórn á leiknum."
Alexander Helgi Sigurðarson og Kristinn Jónsson voru ekki með í dag. „Staðan á þeim er bara ágæt, það er ekkert alvarlegt. Kiddi stífnaði aðeins upp og Lexi fékk högg. Núna, svona í byrjun móts, þá er algjör óþarfi að taka einhverja sénsa með mann. Þeir hvíldu í dag og ég geri ráð fyrir þeim í næsta leik. Þeir sem komu inn í staðinn stóðu sig hrikalega vel og frábært að geta notað breiddina og hópinn."
Kom þér á óvart hversu lítið Vestri ógnaði í leiknum?
„Plan mitt og allra liða er að fá á sig eins fá færi og hættulegar sóknir og hægt er. Þeir eru með sterka menn og hafa ákveðin vopn. Mér fannst við bara gera gríðarlega vel í að pressa og vorum duglegir að hlaupa til baka þegar til þurfti. Fyrst og fremst er ég bara ánægður með varnarvinnuna hjá mínu liði."
Frábært að sjá hann á vellinum
Patrik Johannesen sneri aftur á völlinn eftir tæplega árs fjarveru vegna meiðsla.
„Það var frábært að sjá hann aftur á vellinum, hann er búinn að bíða lengi eftir þessu, búinn að vera hrikalega duglegur í sinni endurhæfingu og búinn að leggja mikla vinnu á sig. Frábært að sjá hann á vellinum, frábært fyrir hann að koma inn aftur og mikilvægt fyrir okkur að fá hann í hópinn."
Með rosalegan hægri fót
Dagur Fjeldsted skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild í dag. „Ekkert sem kom á óvart þar, spilaði vel á undirbúningstímabilinu og skoraði mörk. Hann er mjög ferskur á æfingum og skorar mikið, er með rosalegan hægri fót. Mjög verðskuldað, hann er búinn að leggja hart að sér og átti þetta skilið."
BÆNG og mark. #Dassi ???? pic.twitter.com/Uphwn5LPdt
— Kristján Óli Sigurðsson (@kristjanoli) April 13, 2024
Alvöru prófraun framundan
Breiðablik er með fullt hús stiga en í næsta leik er alvöru prófraun þegar Blikar heimsækja Íslands- og bikarmeistarana í Víkina.
„Það er Víkin næst, svo KR-völlurinn og svo Valur. Þetta er verkefni sem við erum þvílíkt spenntir fyrir. Ég hlakka til að setjast niður á eftir og byrja undirbúa næsta leik. Maður er í þessu fyrir þessa leiki, við erum spenntir og verðum vel undirbúnir fyrir þann leik," sagði Dóri.
Athugasemdir