Vestri spilaði fyrsta heimaleik sinn í Bestu deild karla í dag og vann hann er FH heimsótti liðið á Kerecis-völlinn á Ísafjörð.
FH-ingar byrjuðu leikinn betur og virkuðu líklegri til að skora en heimamenn.
Vestri komst í gegnum góðan kafla FH og fór að beita meiri sóknarþunga eftir rúmar tuttugu mínútur. Fatai Gbadamosi átti hörkutilraun fyrir utan teig, en boltinn fór af varnarmanni og svo rétt framhjá markinu.
Nokkrum mínútum síðar komst Diego Montiel sér í dauðafæri eftir undirbúning Daða Bergs Jónssonar, en Birkir Valur Jónsson náði að koma til bjargar á ögurstundu.
Markið lá í loftinu og um fjórtán mínútum síðar kom það. Anton Kralj kom boltanum upp völlinn og á Daða Berg sem vann Böðvar Böðvarsson í návígi áður en hann skoraði. Fyrsta mark hans í deildinni í sumar.
Síðari hálfleikurinn var ekki mikið fyrir augað. FH-ingar reyndu að finna glufur í varnarleik Vestra en það gekk ekki beint eins og í sögu.
Tuttugu mínútum fyrir leikslok settu þeir meira púður í þetta og náðu að skapa örlitla hættu á teig heimamanna. Kjartan Kári Halldórsson átti sendingu á Dag Traustason undir lokin en hann skallaði boltann yfir markið.
Vörn Vestra hélt vel og 1-0 sigur heimamanna staðreynd. Vestri er með fjögur stig úr tveimur leikjum, en FH án stiga eftir annað tap sitt í deildinni.
Besta-deild karla
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. Víkingur R. | 2 | 2 | 0 | 0 | 6 - 0 | +6 | 6 |
2. Stjarnan | 2 | 2 | 0 | 0 | 4 - 2 | +2 | 6 |
3. Vestri | 2 | 1 | 1 | 0 | 2 - 1 | +1 | 4 |
4. Fram | 2 | 1 | 0 | 1 | 4 - 3 | +1 | 3 |
5. Breiðablik | 2 | 1 | 0 | 1 | 4 - 4 | 0 | 3 |
6. ÍA | 2 | 1 | 0 | 1 | 2 - 2 | 0 | 3 |
7. KR | 2 | 0 | 2 | 0 | 5 - 5 | 0 | 2 |
8. Valur | 2 | 0 | 2 | 0 | 4 - 4 | 0 | 2 |
9. Afturelding | 2 | 0 | 1 | 1 | 0 - 2 | -2 | 1 |
10. ÍBV | 2 | 0 | 1 | 1 | 0 - 2 | -2 | 1 |
11. KA | 2 | 0 | 1 | 1 | 2 - 6 | -4 | 1 |
12. FH | 2 | 0 | 0 | 2 | 1 - 3 | -2 | 0 |
Athugasemdir