Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   mán 13. júní 2016 07:30
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Úr alpasælunni í námurnar
Elvar Geir Magnússon
Elvar Geir Magnússon
Icelandair
Æfingavöllur Íslands í Annecy.
Æfingavöllur Íslands í Annecy.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenska liðið fer með rútu til Saint-Etienne.
Íslenska liðið fer með rútu til Saint-Etienne.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í dag er ferðadagur hjá íslenska landsliðinu, framundan leikur gegn Portúgal á fallegu þriðjudagskvöldi í námuborginni Saint-Etienne. Liðið fer í rútuferð frá fjallasælunni í Annecy. Fjarlægðin er svipuð og frá Reykjavík og í Staðarskála. Þetta er stysta ferðin hjá strákunum okkar sem fara í flugi í hina tvo leiki riðilsins.

Sá stóri hópur íslenskra fjölmiðlamanna sem hér er heldur einnig í rútuferð, ferðalag sem hefst eftir um hálftíma þegar þessi pistill er skrifaður. Fulltrúar Fótbolta.net og 433.is flugu með liðinu út fyrir tæpri viku og svo fjölgaði í hópnum jafnt og þétt og fjörið eykst með hverri klukkustund.

Íslenskir fjölmiðlamenn hafa lært það í þessari ferð að franskir leigubílstjórar eru pirraðir og áttavilltir, Frökkum finnst töff að reykja og hundar eru vinsælir. Og að Annecy er frábær staður þar sem veðrið er breytilegra en á Íslandi. Eina mínútuna heiðskírt og lúxus sól, næstu dembandi rigning.

Það er eitthvað óraunverulegt við það að hafa horft á fyrstu leiki mótsins vitandi að það styttist í að Ísland fái stóra sviðið.

Fjölmiðlar hafa fengið góðan tíma með leikmönnum sem hafa fengið athygli um allan heim. Þeir eru svo vanir því að fá spurninguna "Hver er galdurinn á bak við þessa velgengni Íslands?" frá erlendum fjölmiðlamönnum að þeir þylja svarið upp án þess að þurfa að hugsa. Samstaðan, hallirnar, baráttuandinn, þjálfaramenntunin, skipulagið, íslenska vatnið...

Nú er að gera það að verkum að undankeppnin er bara upphafið á ævintýrinu, það er von sem við eigum öll.

Stuðningsmenn Íslands hafa dreift sér um allt Frakkland og jafnvel löndin í kring. Á leikdegi sameinast svo allir í þeirri borg sem spilað er í og kynnast töfrum fótboltans og Frakklands.

Við þá sem eru að fara að mæta til Saint-Etienne vil ég samt segja: Ekki gera miklar væntingar til borgarinnar. Þetta er bara það sem mér er sagt. Borgin var varaborg upphaflega fyrir keppnina en var tekin inn vegna fjölgunar þátttökuliða. Eins og nafnið Saint-Etienne (með frönskum hreim) hljómar girnilega býður borgin víst upp á fátt. Nema fyrir ykkur sem hafið gaman af námum eins og ég.
Athugasemdir
banner
banner