Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mán 13. júní 2022 14:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
GOATar sló met sem hann hafði ekki hugmynd um - „Smá fyndið"
Ég skoraði í uppbótartíma og stemningin eftir leik var sérstaklega góð
Ég skoraði í uppbótartíma og stemningin eftir leik var sérstaklega góð
Mynd: Oakland Roots
Það fer vel um mig hérna
Það fer vel um mig hérna
Mynd: Oakland Roots
Óttar gekk í raðir Venezia haustið 2020.
Óttar gekk í raðir Venezia haustið 2020.
Mynd: Venezia
Öflugur vinstri fótur!
Öflugur vinstri fótur!
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Samanborið við Ítalíu er þetta svart og hvítt
Samanborið við Ítalíu er þetta svart og hvítt
Mynd: Oakland Roots
Marki fagnað. Mörkin eru alls orðin tíu í fimmtán deildarleikjum.
Marki fagnað. Mörkin eru alls orðin tíu í fimmtán deildarleikjum.
Mynd: Oakland Roots
Bikarmeistari 2019
Bikarmeistari 2019
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óttar Magnús Karlsson er leikmaður Oakland Roots í Bandaríkjunum. Óttar er þar á láni frá ítalska félaginu Venezia og hefur gert góða hluti frá komu sinni til Kaliforníu.

Víkingurinn, sem er 25 ára, ræddi við Fótbolta.net í gær um tímann til þessa í Oakland. Fréttaritari heyrði í Óttari á meðan hann var úti í göngutúr.

„Við vorum að spila í nótt, úrslitin voru hálfsvekkjandi þar sem við fengum á okkur helvíti ódýr mörk. Það var svolítið svekkjandi á því að gefa tvö mörk og þurfa að elta allan leikinn en fínt úr því sem komið var að ná stigi úr leiknum. Við erum búnir að vera ansi gjarnir á að gefa ódýr mörk á þessum tímabili og vonandi fer það að komast í lag," sagði Óttar um jafnteflið gegn Rio Grande aðfaranótt sunnudags.

Óttar náði því í maí og byrjun júní að skora í fimm leikjum í röð. Í fimmta leiknum skoraði hann tvö mörk gegn Orange County. Meira um þann leik síðar. Var sjálfstraustið í botni á þeim kafla?

„Já, það mætti í rauninni segja það. Það er svo sem ekkert dottið niður síðan þá, ég lagði upp í þarsíðasta leik. Ég var kannski ekki alveg að finna mig í leiknum í gær en á þessum kafla fann ég að mikið var að ganga upp og ég var að finna mig mjög vel. Ég er ekkert farinn úr þeirri tilfinningu, er í góðu standi og það er gott að vera kominn aftur í þann gír að spila og skora."

Svart og hvítt miðað við Ítalíu
Roots spilar í USL Championship deildinni sem er deildin fyrir neðan MLS í bandaríska fótboltapíramídanum. Deildin er tvískipt eftir svæðum. Er hægt að bera þessa deild saman við einhverja aðra?

„Ég veit ekki alveg hvernig ég á að útskýra þetta. Þetta er ekki mjög tæknileg deild, meira 'physical' og mikið upp og niður völlinn. Það er svolítil læti í leikjunum og samanborið við Ítalíu er þetta svart og hvítt. Á Ítalíu er mikið lagt upp úr taktík og liðsfærslum en hér eru menn ekki jafngóðir taktískt."

„Ég vissi ekki út í hvað ég var að fara en þetta hefur verið gott hingað til. Mér líður vel hér í Oakland."
Leikkerfið sem Oakland spilar er 3-4-3 þar sem Óttar er fremsti maður.

En talandi um Oakland, ertu að fíla þig þarna?

„Já, þetta er lífsreynsla. Kúltúrinn er auðvitað svolítið örðuvísi. Ég kom frá Ítalíu og þetta eru svolítið viðbrigði, í Kaliforníu er mjög rólegt og menn eru ekkert of mikið að stressa sig á lífinu. Hér er gott veður, ekkert of heitt og þægilegt. Það fer vel um mig hérna."

Ertu sáttur við þann stað sem þú ert á núna, sáttur að spila á þessu getustigi?

„Auðvitað væri maður alveg til í að vera á hærra 'leveli', ég get alveg sagt það. En miðað við staðinn sem ég var á - þetta var svolítið millibilsástand einhvern veginn - og til að koma mér af stað þá held ég að þetta hafi verið fínt skref."

Stóra Ó-ið sló félagsmetið
Óttar er á láni hjá Oakland út tímabilið í Bandaríkjunum. Á dögunum náði hann þeim áfanga að verða markahæsti leikmaður í sögu Roots. Var mikið gert úr því?

„Ég fór í eitthvað viðtal þar sem mér var tilkynnt það en ekkert meira en það. Þetta eru tíu mörk, alveg gaman og allt það en smá fyndið. Þetta er glænýtt félag og gaman að eiga þetta met."

Aðspurður sagðist Óttar ekki hafa vitað af metinu. „Nei, ég gerði það nefnilega ekki og var ekki neitt að pæla í því."

Ertu kominn með eitthvað gælunafn frá stuðningsmönnum eða liðsfélögunum?

„Já, ég hef heyrt nokkur til. Það er þetta klassíska The Iceman sem varla telur, Big Ó og svo er eitt nýlegt; GOATar."

Sjö tíma mismunur
Sjö klukkutíma tímamismunur er á milli Kaliforníu og Íslands. Er púsluspil að hafa samskipti við fjölskylduna á Íslandi?

„Já, það er það. Maður þarf að skipuleggja sig svolítið vel. Um leið og ég vakna er ég í raun farinn á æfingar þannig ég þarf strax eftir æfingar að negla mér í símann ef ég ætla ná í fólkið mitt heima áður en allir fara að sofa. Þetta er bara tímabundið og allt í góðum málum."

„Kannski var bara tímaspursmál hvenær þetta myndi smella"
Þar sem talið barst að tengingu við Ísland var tilvalið að ræða næst um Víking sem varð tvöfaldur meistari síðasta haust.

„Ég reyni að fylgjast með eins vel og ég get. Það er ótrúlega gaman að fylgjast með þessu og sérstaklega var ég ánægður að sjá Kára og Sölva ná að klára þetta svona með stæl. Þeir áttu það alveg skilið. Það var langt síðan uppeldisklúbburinn varð Íslandsmeistari og það var gaman að fylgjast með þessu, hvernig liðið hefur þróast."

Óttar varð bikarmeistari með liðinu 2019 og þegar hlutirnir gengu ekki alveg upp árið 2020. Hvernig metur þú utan frá muninn á tímabilinu 2020 og 2021?

„Þeir hafa talað um það í viðtölum þeir Arnar og Kári. Það er þetta 'know how' eða kunnátta að vinna leikina. Það er auðvitað lagt upp með að spila góðan fótbolta og skemmtilegan til að horfa á en þetta sigurhugarfar, að ætla sér að vinna sama hvað það er sem þarf til þess. Það færði þetta upp á næsta 'level'."

„Þegar ég var þarna 2020 þá vorum við með allt sem þurfti til en kannski þurftum við bara tíma til að búa til það sem svo varð til ári seinna, treysta því sem var að gerast. Kannski var það bara tímaspursmál hvenær þetta myndi smella."


Bandaríkjamenn góðir að halda viðburði
Aftur til Bandaríkjanna, hversu stórir eru þessir leikir sem þú ert að spila. Eru einhverjir leikir stærri en aðrir?

„Það er rígur á milli einhverra félaga hérna í Kaliforníu. Bandaríkjamenn eru mjög góðir að halda viðburði, mikið af tónlist fyrir leiki, stemning og læti á leikjunum og þetta verður svolítið 'show'. Þeir kunna alveg að halda viðburði og það er stemning í kringum leikina."

„Það eru á bilinu 5-10 þúsund manns sem mæta á leikina. Leikirnir sem skera sig úr til þessa eru opnunarleikurinn. Þó að við töpuðum þeim leik þá var mjög mikil stemning og svo þegar við unnum á heimaleiki gegn Orange County. Ég skoraði í uppbótartíma og stemningin eftir leik var sérstaklega góð."


Eiga von á barni
Hvað er best við að vera í Bandaríkjunum?

„Þetta er mjög góð spurning," sagði Óttar og þurfti að hugsa sig vel um. „Ég myndi örugglega segja hvað allt er einfalt í daglega lífinu. Hvort sem það er þegar maður er að fá eitthvað heimsent eða fara út í búð. Veðrið í Kalíforníu er líka mikill kostur. Þar sem ég er allt frekar rólegt."

Er eitthvað frí á tímabilinu, eitthvað tækifæri fyrir þig til að kíkja til Íslands?

„Já, ég held að það sé frí í lok júlí - í kringum Verslunarmannahelgina - þá fáum við tæplega vikufrí og ég get kíkt aðeins heim."

Á að nýta tækifærið og fara beint til Vestmannaeyja? „Við sjáum aðeins til með það," sagði Óttar og hló. „Konan á von á barni þannig ég hugsi að ég verði rólegur. Hún er búin að vera með mér hérna en er nýfarin til Íslands og verður heima þangað til lilli mætir," sagði Óttar.

Nánar var rætt við Óttar og var hann nánar spurður út í skiptin frá Venezia til Oakland svo eitthvað sé nefnt. Önnur grein verður birt seinna í dag.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner