Liverpool hefur áhuga á Gomes - Yamal fær nýjan samning - Sean Dyche íhugar markvarðarbreytingu
   fös 13. september 2024 07:30
Elvar Geir Magnússon
Heimild: BBC 
Réttarhöld aldarinnar að hefjast
Manchester CIty hefur unnið Englandsmeistaratitilinn fjögur síðustu tímabil.
Manchester CIty hefur unnið Englandsmeistaratitilinn fjögur síðustu tímabil.
Mynd: EPA
Sjeik Mansour, eigandi Manchester City.
Sjeik Mansour, eigandi Manchester City.
Mynd: Getty Images
Ethiad leikvangurinn, heimavöllur Manchester City.
Ethiad leikvangurinn, heimavöllur Manchester City.
Mynd: Getty Images
Á mánudaginn hefjast ein stærstu réttarhöld í íþróttasögunni en þá verða teknar fyrir 115 ákærur á hendur Manchester City vegna meintra fjármálabrota í ensku úrvalsdeildinni.

City er sakað um margvísleg brot á reglum í keppninni sem félagið hefur unnið síðustu fjögur ár. Félagið hefur alltaf haldið fram sakleysi sínu og enginn veit hver útkoman verður.

Talað er um íþróttaréttarhöld aldarinnar og er búist við því að þau taki alls tíu vikur og niðurstaða sé væntanleg snemma árs 2025.

Manchester City er í eigu meðlims konungsfjölskyldunnar í Abú Dabí sem á alls þrettán fótboltafélög í fimm heimsálfum. Ákærurnar 115 ná yfir fjórtán tímabil og snúast meðal annars um brot á reglum um útgjöld og að Manchester City hafi ekki veitt nákvæmar upplýsingar um fjárhagsmál sín.

Hvaða refsingu gæti City fengið?
Verði City fundið sekt um alvarlegustu ákærurnar verður það eitt stærsta fjármálahneyksli íþróttasögunnar. Þá gæti City fengið mikinn stigafrádrátt eða samkvæmt ströngustu reglum hreinlega brottrekstur úr ensku úrvalsdeildinni. Það myndi að sjálfsögðu varpa svörtum skugga á árangur félagsins.

Þá telja sérfræðingar að það myndi hafa áhrif á samband Bretlands og Sameinuðu arabísku furstadæmana, þar sem forseti landsins er bróðir Sjeik Mansour eiganda Manchester City.

Á hinn bóginn, ef City verður hreinsað af sök eftir lagalegan bardaga sem hefur kostað tugi milljóna punda verða stór spurningamerki sett við ensku úrvalsdeildina. Hvaða dómur sem kveðinn verður upp gætu áhrifin verið djúp og ráðið sögu yfirstandandi tímabils.

Fyrir hvað er Manchester City ákært?
Þessi réttarhöld hafa lengi verið í fæðingu. Það eru tíu ár síðan UEFA refsaði City fyrst fyrir brot á fjárhagsreglum, sex ár síðan enska úrvalsdeildin hóf rannsókn á félaginu og tuttugu mánuðir síðan ákærur voru lagðar fram.

Svona flokkast ákærurnar 115:

54 ákærur fyrir misbrest á að veita nákvæmar fjárhagsupplýsingar 2009-10 til 2017-18.

14 ákærur fyrir misbrest á að veita nákvæmar upplýsingar um greiðslur leikmanna og stjóra frá 2009-10 til 2017-18.

5 ákærur fyrir meint brot á reglum UEFA, þar á meðal Financial Fair Play (FFP) 2013-14 til 2017-18.

7 ákærur brjóta fjárhagsreglur úrvalsdeildarinnar 2015-16 til 2017-18.

35 ákærur fyrir misbrest í samvinnu við rannsóknir ensku úrvalsdeildarinnar desember 2018 - febrúar 2023.

Hver er líklegasta niðurstaðan?
Það er hreinlega ómögulegt að segja vegna þess að það eru engin fordæmi fyrir öðru eins. Einhverjir telja að niðurstaðan ráðist hreinlega á því hvor aðilinn, City eða enska úrvalsdeildin, hafi færari lögfræðinga. Æðstu menn City hafa alltaf sagst vera vissir um að verða hreinsaðir af þessum ásökunum en ýmsir sérfræðingar eru á öðru máli.

Á endanum verður það á valdi þriggja meðlima óháðrar aganefndar með takmarkalaus völd að kveða upp dóm. Eins og áður sagði er búist við því að það verði gert eftir að nýtt ár gengur í garð.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner